Brennandi bíll
Brennandi bíll — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Karl og kona á þrítugsaldri liggja á sjúkrahúsinu á Akureyri eftir að bíll fór út af veginum við bæinn Ytri-Bægisá í Hörgárdal á þriðja tímanum í gær. Bíllinn valt inn á nærliggjandi tún þar sem kviknaði í honum.

Karl og kona á þrítugsaldri liggja á sjúkrahúsinu á Akureyri eftir að bíll fór út af veginum við bæinn Ytri-Bægisá í Hörgárdal á þriðja tímanum í gær. Bíllinn valt inn á nærliggjandi tún þar sem kviknaði í honum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var talsverður viðbúnaður á staðnum. Slökkvistarf gekk vel en nokkur ummerki voru eftir slysið.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra sagðist í gærkvöld ekki hafa frekari upplýsingar um líðan fólksins en bíllinn er ónýtur. Manninum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum en konan vankaðist og þurfti að hjálpa henni út.

Bílnum var ekið í norðurátt þegar hann fór út af veginum. Veginum var lokað vegna vettvangsrannsóknar en hann var opnaður aftur í gærkvöldi. Lögregla gat í gær ekki veitt neinar upplýsingar um orsakir slyssins en sagði rétt að fram kæmi að ekki hefði verið hálka á vettvangi.

freyr@mbl.is