Romy Schneider og Horst Buchholz í Elskendum í París.
Romy Schneider og Horst Buchholz í Elskendum í París.
Líf og fjör var í kvikmyndahúsum landsins fyrir réttum sextíu árum, í byrjun nóvember 1960.

Líf og fjör var í kvikmyndahúsum landsins fyrir réttum sextíu árum, í byrjun nóvember 1960. Austurbæjarbíó sýndi „Elskendur í París“, sem var „skemmtileg og áhrifamikil ný þýzk kvikmynd í litum byggð á hinni þekktu Parísar-ástarsögu eftir Gabor von Vaszary“. Fyrir þá sem ekki skildu þýskuna var boðið upp á danskan texta. Í aðalhlutverkum voru Romy Schneider, „ein vinsælasta leikkona Þjóðverja um þessar mundir“, og Horst Buchholz, „James Dean Þýzkalands“.

Trípolí-bíó bauð upp á Umhverfis jörðina á 80 dögum sem var „heimsfræg, ný, amerísk stórmynd tekin í litum og Cinema Scope af Mike Todd. Gerð eftir hinni heimsfrægu sögu Jules Verne með sama nafni“. Með aðalhlutverkið fór enginn annar en David Niven „ásamt 50 af frægustu kvikmyndastjörnum heims“. Vel í lagt þar.

Stjörnubíó var með The Strange One með Ben Gazzara sem að sjálfsögðu útlagðist „Hinn miskunnarlausi“.

Gary Cooper var með aðsetur í Gamla bíói en stórmyndin Friendly Persuation hét „Elska skaltu náungann“ upp á íslensku.

Bæjarbíó var léttara á bárunni, sýndi „Liana – hvíta ambáttin“ sem var „ævintýramynd í eðlilegum litum“. Framhald af „Liana nakta stúlkan“.