Féll saman í hvassviðri Mildi þykir að ekki urðu slys á fólki þegar kraninn féll saman í Urriðaholti í fyrradag.
Féll saman í hvassviðri Mildi þykir að ekki urðu slys á fólki þegar kraninn féll saman í Urriðaholti í fyrradag. — Morgunblaðið/SES
Vinnueftirlitið rannsakar nú tildrög þess að byggingarkrani féll á byggingu við Mosagötu í Urriðaholti. Óhappið varð síðdegis í fyrradag en frekari upplýsingar verða ekki veittar um málið að svo stöddu.

Vinnueftirlitið rannsakar nú tildrög þess að byggingarkrani féll á byggingu við Mosagötu í Urriðaholti.

Óhappið varð síðdegis í fyrradag en frekari upplýsingar verða ekki veittar um málið að svo stöddu.

Þrír kranar og pallalyfta voru notuð til að tryggja svæðið eftir að kraninn féll saman á þak hússins og yfir bílastæði á fjærhlið þess, eins og myndin hér til hliðar sýnir.

Vindasamt var á höfuðborgarsvæðinu þegar óhappið varð.

Álíka slys varð í Urriðaholti nýverið en hverfið er í uppbyggingu.

Þannig féll krani á einbýlishús við Hraungötu 4. janúar síðastliðinn. Við það urðu meðal annars skemmdir á þaki hússins.

Féll saman í hvassviðri

Fram kom í frétt á mbl.is að vont veður hefði verið víða um land þegar slysið varð og náði það hámarki um hádegisbilið. En kraninn var sagður hafa fallið á húsið rétt fyrir hádegi.

Þá kom fram í Morgunblaðinu 18. apríl 2017 að legið hafi við stórslysi er byggingarkrani féll á hús í Ásholti í lok árs 2015 en þá var vonskuveður. Snemma sama ár féll byggingarkrani við Lyngás 1 í Garðabæ við sambærilegar aðstæður, að því er fram kom í sömu frétt.

Af öðrum dæmum má nefna að byggingarkrani féll yfir nýbyggingu í Hafnarstræti, rétt við pylsuvagninn Bæjarins bestu, í lok september 2016. Fram kom á mbl.is að tildrög slyssins hefðu verið þau að stór stafli af timbri féll úr krananum skömmu áður en hann hrundi niður.

Sýnt þótti að átt hefði verið við öryggisbúnað sem átti að varna því að kraninn lyfti of þungu hlassi og félli niður. baldura@mbl.is