[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Anton Sveinn McKee synti 100 metra bringusund á ISL-mótaröðinni í Búdapest í Ungverjalandi í gærmorgun og hafnaði í fjórða sæti.

* Anton Sveinn McKee synti 100 metra bringusund á ISL-mótaröðinni í Búdapest í Ungverjalandi í gærmorgun og hafnaði í fjórða sæti. Anton synti á tímanum 57,71 sekúndu í gær en einungis 13 dagar eru liðnir frá því hann setti nýtt Íslands- og Norðurlandamet í greininni á tímanum 56,30.

*Varalið PSV Eindhoven vann sinn fjórða leik á tímabilinu í hollensku B-deildinni í fótbolta í gærkvöld er liðið lagði Den Bosch á útivelli, 2:1. Kristófer Ingi Kristinsson var í byrjunarliði PSV-liðsins og lagði upp fyrsta mark leiksins á Fodé Fofana á 9. mínútu, en hann gerði bæði mörk PSV. Kristófer fór af velli á 89. mínútu.

*Knattspyrnumaðurinn Jóhann Laxdal hefur lagt skóna á hilluna en hann er þrítugur. Jóhann hefur alla tíð leikið með Stjörnunni, alls 240 keppnisleiki. Í leikjunum 240 skoraði Jóhann 14 mörk. Bakvörðurinn lék sjö leiki með Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni á nýliðinni leiktíð. Hann er annar leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild, á eftir bróður sínum , Daníel Laxdal .

*Forráðamenn Manchester United eru í viðræðum við Mauricio Pochettino um að verða nýr knattspyrnustjóri liðsins en núverandi stjórinn, Ole Gunnar Solskjær , er orðinn valtur í sessi. Samuel Luckhurst , fréttamaður Manchester Evening News, segir frá því að United sé í viðræðum við Argentínumanninn sem stýrði síðast Tottenham með góðum árangri, kom liðinu meðal annars í úrslit Meistaradeildarinnar.