Andrés Magnússon andres@mbl.is Stjórnvöld kanna nú sérstakar skattaívilnanir, sem hvetji til „grænna“ fjárfestinga og í hátækni og nýsköpun. Þetta kemur fram í grein, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Stjórnvöld kanna nú sérstakar skattaívilnanir, sem hvetji til „grænna“ fjárfestinga og í hátækni og nýsköpun. Þetta kemur fram í grein, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag. Hún telur að ef vel takist til geti sá erfiði kafli, sem þjóðin gengur nú í gegnum, orðið til umbreytinga og tækniþróunar, sem auki verðmætasköpun og verji náttúruna.

Í samtali við Morgunblaðið vildi Katrín ekki tímasetja hvenær af slíkum skattaívilnunum geti orðið. „Það sem ég get sagt, er að við erum að vinna að þessum tillögum, sem miða að því að auka og efla einkafjárfestingu í þágu atvinnuveganna,“ segir Katrín.

Verðmætasköpun og grænar áherslur fari saman

Katrín telur að með því móti megi taka stærri skref til að ná árangri í loftslagsmálum og tryggja að tæknibreytingar auki í senn velsæld og verðmætasköpun. Fólk megi ekki gleyma að hagkerfið, sem komi út úr kórónukreppunni, verði ekki nákvæmlega eins og hagkerfið sem fór inn í kreppuna.

Í greininni eru raktar helstu efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar til þess að milda höggið, afstýra fjöldaatvinnuleysi og undirbúa viðreisn atvinnulífsins. Þar hafi afli hins opinbera verið beitt gegn kreppunni. Meðan faraldurinn geisi muni stjórnvöld áfram styðja við þá sem fyrir áföllum verði og beita til þess fullum þunga ríkisfjármálanna.

Forsætisráðherrra minnir á að ríkisstjórnin hafi skipulega aukið opinbera fjárfestingu, þótt hún ein dugi ekki til, líkt og hugmyndir um skattaívilnanir beri með sér. En koma frekari stórfjárfestingar hins opinbera til greina? „Við erum nú þegar að gera ráð fyrir miklum fjárfestingum, bæði á fjárlögum og fjármálaáætlun,“ segir Katrín. „En nei, ég get ekki útilokað að hún verði aukin.“