Fjöldi fólks yfir áttræðu mun tvö- til þrefaldast á næstu þrjátíu árum

Blikur eru á lofti í rekstri hjúkrunarheilmila og þjónustu við aldraða um þessar mundir. Uppbygging á hjúkrunarheimilum hefur verið allt of hæg og miklir erfiðleikar eru í rekstri þeirra flestra þar sem daggjöld frá ríki duga ekki fyrir kostnaði.

Undanfarna daga hefur Helgi Bjarnason blaðamaður farið yfir stöðu hjúkrunarheimila í Morgunblaðinu og dregið upp dökka mynd af ástandinu. Niðurstaða lokagreinar hans í blaðinu í dag er sú að sveitarfélög séu lögð á flótta frá verkefninu.

Þar kemur fram og eru ekki ný tíðindi að þrátt fyrir að viðurkennt sé að verkefnið sé heilbrigðisþjónusta og á verksviði ríkisins en ekki sveitarfélaga séu daggjöldin svo lág að sveitarfélögin hafi þurft að greiða með rekstrinum.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, hefur verið óþreytandi að gagnrýna ástandið. Hann bendir á að margt hafi breyst frá því sem áður var. Þeir sem flytjist inn á hjúkrunarheimili nú séu veikari en áður og það útheimti sífellt meiri og flóknari læknis- og hjúkrunarþjónustu. Þá séu heimilin orðin líknarstofnanir að hluta. Áður hafi veikir heimilismenn iðulega verið sendir á sjúkrahús, en nú deyi þeir nánast allir á sínu hjúkrunarheimili.

Forstjórar hjúkrunarheimila gagnrýna að ekki fáist bætur vegna aukins kostnaðar á borð við launahækkanir. Þess í stað sé þeim nú sett hálfs prósents hagræðingarkrafa líkt og fjögur undanfarin ár. Í raun sé verið að lækka framlög til umönnunar heimilisfólks.

Gísli Páll bendir á að á sama tíma fái nær öll önnur heilbrigðisþjónusta hækkanir umfram launa- og verðlagshækkanir.

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, kallar eftir því í greinaflokkinum að ríkið geri grein fyrir því hvað það borgi eigin stofnunum og nefnir Vífilsstaði. Þeir veiti eðli sínu samkvæmt minni þjónustu en hjúkrunarheimili þar sem fólk fái varanlega búsetu. Fullyrt hefur verið að daggjöld þar séu 52 þúsund krónur, en daggjöld hjúkrunarheimila án húsnæðisliðar 38 þúsund. Standist þetta má líta á það sem viðurkenningu ríkisins á því að daggjöldin dugi ekki.

Niðurstaðan er sú að sveitarfélög hafa ákveðið að segja upp þjónustusamningum við ríkið um rekstur hjúkrunarheimila eða eru að íhuga það.

Ofan á þetta bætist að mun færri komast að en vilja. Bið eftir plássi á hjúkrunarheimili er nú um hálft ár. Það er allt of langur tími og ljóst að það getur haft neikvæð áhrif á heilsu að þurfa að bíða lengi. Þá þarf að fá færni- og heilsumat til að komast á biðlista og það getur líka tekið sinn tíma, þannig að líkast er hinn raunverulegi biðtími nokkuð lengri.

Ef ekki verður breyting á mun þetta ástand versna á næstu árum. Eldri borgurum mun fjölga hratt á næstu árum. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar mun fjöldi fólks yfir áttræðu tvö- til þrefaldast á næstu 30 árum á sama tíma og íbúum landsins mun fjölga um 15%. Þetta kallar á að reisa þurfi eitt til tvö ný hjúkrunarheimili á ári um leið og gefa þarf í til að þjónustan verði viðunandi.

Hjúkrunarheimilin eru orðin aðþrengd og þrákelkni stjórnvalda veldur því að spyrja má hvort rekstrarformið eigi þar einhvern hlut að máli. Hér verður að leita allra leiða til þess að finna viðunandi lausn. Í greinaflokknum er meðal annars fjallað um hugmyndir um einkaframkvæmd. Getur verið að þar megi finna lausn til úrbóta? Það verður að skoða.

Ríkið hefur borið því við að beðið sé niðurstöðu úr vinnu verkefnahóps heilbrigðisráðherra og greiningu á raunverulegum kostnaði við rekstur hjúkrunarheimila og í kjölfarið verði gripið til aðgerða.

Sú vinna er seint á ferð. Vandinn hefur lengi verið ljós. Ekki bætir úr skák að svigrúmið til að bregðast við með viðeigandi hætti er minna núna vegna kórónuveirunnar en áður var. Það bætir hins vegar ekkert að slá hlutunum á frest. Það verður bara til þess að vandinn magnast og verður ískyggilegri.