Veitingahús Erfiðir tímar eru fram undan í veitingageiranum á næstunni.
Veitingahús Erfiðir tímar eru fram undan í veitingageiranum á næstunni. — Morgunblaðið/Eggert
„Núna erum við að bíða eftir því að stjórnvöld komi hressilega til móts við greinina svo að það fari ekki illa, sérstaklega hjá fyrirtækjum í veitingarekstri í miðbænum,“ segir Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino´s á Íslandi.

„Núna erum við að bíða eftir því að stjórnvöld komi hressilega til móts við greinina svo að það fari ekki illa, sérstaklega hjá fyrirtækjum í veitingarekstri í miðbænum,“ segir Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino´s á Íslandi. Hann bindur vonir við að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði geti beitt sér á þeim erfiðu tímum sem fram undan séu. Stærstu aðilarnir í geiranum séu í samtökunum, sem létu KPMG vinna skýrslu um launakostnað í veitingageiranum. Birgir segir að það hafi komið sér mest á óvart í skýrslunni hversu veitingageirinn var á erfiðum stað áður en kórónuveirufaraldurinn hófst. „Hann var kominn í mjög þrönga stöðu en það er augljóst að Covid-19 er búið að fara með greinina á mun verri stað,“ segir Birgir Örn en miðað við skýrsluna lítur út fyrir að staðan verði enn verri eftir tvö ár þegar lífskjarasamningurinn hefur runnið sitt skeið.

Hann segir að það hafi einnig verið athyglisvert í skýrslunni að hér á landi séu langhæstu launin í veitingageiranum miðað við í hinum norrænu ríkjunum. „Það sýnir hvað það er skringilega gefið í þessu öllu saman.“

Greindur var launakostnaður í veitingageiranum til að varpa ljósi á launa- og afkomuþróun í geiranum frá árinu 2014 og draga saman sérstöðu veitingarekstrar. Þar kemur fram að veitingageirinn á Íslandi hefur ekki náð að velta launahækkunum út í verðlag og því má áætla að launahækkanir næstu ára sem voru samþykktar í lífskjarasamningnum muni lækka enn frekar arðsemi af veitingarekstri.

Hann segir veitingastaði hafa komið mjög illa út úr síðustu kjarasamningum. „Við höfum góðan skilning á því að það þurfi að hækka lægstu launin en að sama skapi er það augljóst af lestri skýrslunnar að það var gengið of langt hvað varðar getu greinarinnar til að borga þau laun,“ bætir hann við. Nánar er fjallað um þetta á mbl.is. freyr@mbl.is