Birgir Már Pétursson, fv. héraðsdómari og sýslumaður, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 31. október síðastliðinn, á 81. aldursári. Már fæddist 11.

Birgir Már Pétursson, fv. héraðsdómari og sýslumaður, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 31. október síðastliðinn, á 81. aldursári.

Már fæddist 11. desember árið 1939 á Guðlaugsstöðum í Blöndudal í A-Húnavatnssýslu, sonur Huldu Pálsdóttur, kennara og húsfreyju á Höllustöðum, og Péturs Péturssonar, hreppstjóra og bónda þar.

Már varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1960 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1967. Hann stundaði framhaldsnám í réttarfari, félagsrétti og skaðabótarétti við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1969-1970. Sótti jafnframt fyrirlestra í stjórnmálafræði við sama skóla og kynnti sér starfsemi dómstóla í Danmörku og Suður-Svíþjóð.

Á námsárum sínum vann Már á sumrum á jarðvinnsluvélum í Húnaþingi og síðar sem veiðieftirlitsmaður og erindreki Framsóknarflokksins. Að námi loknu hóf hann störf sem fulltrúi bæjarfógeta í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1967 til 1972. Már var héraðsdómari í Hafnarfirði 1972 til 1987 og bæjarfógeti í Hafnarfirði, Garðabæ og á Seltjarnarnesi og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1987 til 1992. Þá var Már skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness og gegndi því embætti til 1997. Eftir það sinnti hann ýmissi lögfræðilegri ráðgjöf, einkum fyrir Bændasamtök Íslands, til starfsloka 2008.

Már var virkur í félagsmálum og stjórnmálum. Gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn og átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum á háskólaárum sínum og síðar fyrir Reykjavíkurborg og Hafnarfjörð.

Hann var formaður hinnar íslensku Víetnamnefndar 1967-8, Samtaka herstöðvaandstæðinga 1971-1972, Dómarafélags Reykjavíkur og BHMR, svo dæmi séu tekin af formennsku hans. Már átti einnig sæti í kjaradómi og var um skeið varadómari í Landsdómi. Hann ritaði fjölda greina um þjóðmál í blöð og tímarit.

Eftirlifandi eiginkona Más er Sigríður Jósefsdóttir lögfræðingur. Már verður jarðsunginn miðvikudaginn 11. nóvember kl. 15 frá Víðistaðakirkju, að viðstöddum nánustu aðstandendum og vinum.