Erlendur Jóhannesson fæddist á Fáskrúðsfirði 10. október 1937. Hann lést á heimili sínu 1. nóvember 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Michelsen og Guðfinna Árnadóttir. Erlendur var næstyngstur af 12 systkinum.

Hinn 1. janúar 1963 kvæntist Erlendur Rannveigu Rögnu Bergkvistsdóttur, þau bjuggu nánast alla sína búskapartíð á Fáskrúðsfirði. Synir þeirra eru 1) Bergkvist Ómar, f. 15 júní 1962, 2) Drengur, f. 28 apríl 1963, d. 1. maí 1963, 3) Steinar Jón, f. 7 febrúar 1965, kvæntur Dagbjörtu Snæbjörnsdóttur, þeirra börn eru Ragnar, Marsibil Perla og Nína Lee. 4) Jóhannes Michelsen Erlendsson, f. 16. febrúar 1967. Langafabörnin eru þrjú, Nanna Steinunn, Elísabet Harpa og Birgitta Rós Ragnarsdætur.

Erlendur eða Lindi eins og hann var oftast kallaður ólst upp á Fáskrúðsfirði. Lindi hóf nám í Alþýðuskólanum á Eiðum. Hann lauk síðar vélstjóranámskeiði á Ísafirði. Erlendur útskrifaðist frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1962.

Lindi starfaði aðallega við sjómennsku, á þeim árum vann hann meðal annars á vertíðum á Suðurnesjum og Vestmannaeyjum. Lindi var stýrimaður á Hilmi SU í Norðursjó. Hann starfaði einnig töluvert í landi við smíðar og var verkstjóri hjá Búðahreppi á Fáskrúðsfirði. Síðustu 20 ár starfsævi sinnar reri hann á eigin báti sem hét Örk.

Útför Erlendar fer fram í Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag, 7. nóvember 2020, kl. 14.

Í ljósi aðstæðna verða eingöngu nánustu aðstandendur viðstaddir og verður útförinni streymt frá facebooksíðu Fáskrúðsfjarðarkirkju.

Lindi, eins og við kölluðum hann, er farinn frá Rannveigu sinni og fjölskyldunni. Lindi var einstakur hagleiksmaður, hann smíðaði margan pallinn fyrir fólk og fann sér stöðugt verkefni í viðhaldi þeirra húsa sem þau hjónin áttu. Þau byggðu fyrst húsið Lynghaga á Fáskrúðsfirði, en þar bjuggu þau lengst af. Honum féll aldrei verk úr hendi, smíðar lágu einstaklega vel fyrir honum, það er stutt síðan Lindi var uppi á þaki að dytta að.

Við eigum margar góðar minningar um Linda. Þegar hann var unglingur eyddi hann stórum hluta dagsins á brúnni fyrir neðan æskuheimili okkar systkina þar sem þeir Stefán Pálmason spörkuðu bolta á milli sín í gríð og erg.

Þegar Lindi var ungur var hann markmaður í fótbolta hjá Leikni á Fáskrúðsfirði. Hann var frábær skíðamaður og var unun að horfa á hann svífa niður skíðabrekkurnar.

Þegar Guðríður kynntist manni sínum komu þau nokkrum sinnum til Döddu og Linda áður en aðrir í fjölskyldunni hittu kærastann. Þá gat Lindi ekki setið á sér að gera smá at til að villa um fyrir þeim sem mestan áhuga höfðu fyrir nýja sambandinu, það var alveg óborganlegt. Svona var Lindi, alltaf stutt í húmorinn og skemmtilegan hláturinn. Lindi var einstaklega hjálpsamur og bóngóður maður og var snöggur að bregðast við þegar fólk þurfti á aðstoð að halda. Sannur vinur í raun.

Linda verður sárt saknað. Við sendum Döddu og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.

Guðríður Karen

og fjölskylda,

Bergþóra og fjölskylda.