Úrslit Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigri gegn Rúmeníu í undanúrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Nú er komið að úrslitaleiknum sjálfum um sæti á EM gegn Ungverjalandi í Búdapest á fimmtudaginn.
Úrslit Íslensku landsliðsmennirnir fagna sigri gegn Rúmeníu í undanúrslitaleiknum á Laugardalsvelli. Nú er komið að úrslitaleiknum sjálfum um sæti á EM gegn Ungverjalandi í Búdapest á fimmtudaginn. — Morgunblaðið/Eggert
Landsliðið Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.

Landsliðið

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, kynnti í gær 24 manna leikmannahópinn sinn fyrir umspilsleikinn mikilvæga gegn Ungverjalandi næsta fimmtudag sem og gegn Dönum og Englendingum í Þjóðadeildinni þar á eftir. Hópinn skipa allir helstu landsliðsmenn Íslands síðustu ár, byrjunarlið Íslands í Evrópukeppninni sögufrægu í Frakklandi fyrir fjórum árum er allt mætt til leiks og þá voru þessir leikmenn flestallir á HM í Rússlandi sumarið 2018. Það vantar því ekki reynsluna fyrir Ungverjaleikinn.

Hópurinn er í raun sá sami og var valinn fyrir undanúrslitaleikinn gegn Rúmeníu í síðasta mánuði nema að þeir Jón Dagur Þorsteinsson og Mikael Anderson eru ekki með. Þá var hinn 17 ára Ísak Bergmann Jóhannesson ekki valinn þrátt fyrir að hafa farið á kostum í Svíþjóð undanfarna mánuði. Jón Dagur og Ísak eru báðir í hópi U21 landsliðsins sem leikur mikilvæga leiki gegn Ítalíu, Írlandi og Armeníu um sæti á EM.

Staðan á leikmönnum góð

Allar líkur eru á því að Hamrén muni stilla upp sterkasta liðinu sem kostur er á gegn Ungverjum í Búdapest, enda allt undir varðandi möguleikann á að komast á EM næsta sumar. Nokkrir af lykilmönnum liðsins hafa verið að glíma við smávægileg meiðsli undanfarnar vikur en Svíinn er bjartsýnn á að þeir geti allir verið með og segir stöðuna á hópnum almennt góða.

Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson hafa allir verið að glíma við smávægileg meiðsli. Þá eru auðvitað Kári, Hannes Þór Halldórsson og Birkir Már Sævarsson allir á mála hjá íslenskum liðum en ekkert hefur verið hægt að æfa né keppa hérlendis um nokkurra vikna skeiða vegna hertra sóttvarnaaðgerða yfirvalda. Meðal annars vegna þess mun landsliðshópurinn koma saman í Augsburg í Þýskalandi á mánudaginn til að undirbúa sig.

„Það er reynsla, gæði og mikið hungur í þessum leikmannahópi. Við viljum fara á Evrópumeistaramótið,“ sagði Hamrén áræðinn á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær. „Við höfum beðið eftir þessum leik síðan í mars.“

Þótt allra augu séu auðvitað á leiknum gegn Ungverjum skipta viðureignirnar við England og Danmörku í Þjóðadeildinni vissulega máli. Ísland er tveimur sætum frá því að fara upp um styrkleikaflokk hjá FIFA og takist það, meðal annars með góðum úrslitum gegn Dönum og Englendingum, gæti Ísland staðið betur að vígi fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins 2022.

„Ég einbeiti mér fyrst að leiknum gegn Ungverjalandi enda er hann okkur gríðarlega mikilvægur, við viljum fara á EM. Svo hugsum við um Danmörku og England, það skiptir máli að standa okkur vel þar,“ bætti Hamrén við.

Tuttugu þúsund áhorfendur

Ungversk yfirvöld hafa í samráði við UEFA ákveðið að leyfa um 20 þúsund áhorfendur á Puskás-leikvanginum í Búdapest. Þótt þeir verði nánast allir með tölu stuðningsmenn heimamanna er Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari hæstánægður með að þeir verði á staðnum. „Það er stórkostlegt að spila fyrir framan fólk,“ sagði hann á blaðamannafundinum. „Við munum örugglega fá að heyra það en það er hluti af leiknum, við munum njóta þess að hafa stemningu.“

Yngra landsliðið einnig að berjast

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari U21 árs liðs karla, hefur tilkynnt hvaða leikmenn mæta Ítalíu, Írlandi og Armeníu í þremur mikilvægum leikjum í undankeppni EM. Sjá nánar á mbl.is/sport.

Landsliðshópurinn

MARKVERÐIR:

Hannes Þór Halldórsson Val 72 leikir

Ögmundur Kristinsson Olympiacos 16

Rúnar Alex Rúnarsson Arsenal 6

VARNARMENN:

Ragnar Sigurðsson FC Köbenhavn 96

Birkir Már Sævarsson Val 93

Kári Árnason Víkingur R. 85

Ari Freyr Skúlason Oostende 74

Sverrir Ingi Ingason PAOK 33

Hörður B. Magnússon CSKA Moskva 32

Hjörtur Hermannsson Bröndby 17

Hólmar Örn Eyjólfsson Rosenborg 17

MIÐVALLARLEIKMENN:

Aron Einar Gunnarsson Al Arabi 89

Birkir Bjarnason Brescia 89

Gylfi Þór Sigurðsson Everton 76

Jóhann Berg Guðmundsson Burnley 76

Arnór Ingvi Traustason Malmö 37

Rúnar Már Sigurjónsson Astana 28

Guðlaugur Victor Pálsson Darmstadt 20

Arnór Sigurðsson CSKA Moskva 10

SÓKNARMENN:

Kolbeinn Sigþórsson AIK 59

Alfreð Finnbogason Augsburg 59

Jón Daði Böðvarsson Millwall 52

Viðar Örn Kjartansson Vålerenga 27

Albert Guðmundsson AZ Alkmaar 15