Vonandi beinist athygli annarra sveitarfélaga að þeim líka.

Geðheilbrigðismál voru í brennidepli á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur sl. þriðjudag. Frumkvæði að því hafði einn af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Valgerður Sigurðardóttir, sem flutti tillögu sem allir borgarfulltrúar flokksins stóðu að um „úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna Covid-19“.

Í greinargerð tillögunnar er bent á að miklar breytingar hafi orðið á samfélagi okkar á þessu ári, „enda hefur kórónuveikifaraldurinn sett mark sitt á daglegt líf allra landsmanna“.

Í greinargerðinni segir enn fremur:

„Þá hefur ástandið leitt til félagslegrar einangrunar ýmissa hópa í viðkvæmri stöðu líkt og eldri borgara. Þessi staða verður sífellt þyngri þar sem faraldurinn hefur dregizt á langinn, ekki sízt meðal viðkvæmra hópa.“

Þetta eru rökin fyrir því í greinargerð tillögunnar að gera þurfi úttekt á því hver raunveruleg staða þessara mála sé í Reykjavík og jafnframt að gerð verði aðgerðaáætlun, sem útlisti aðgerðir til úrbóta.

Til marks um áhrif veirunnar á viðkvæma hópa er vakin athygli í greinargerð tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á bráðabirgðatölum frá ríkislögreglustjóra vegna sjálfsvíga sem bendi til þess „að staða geðheilbrigðismála sé þung“. Þar kemur fram að á fyrstu átta mánuðum ársins hafi verið farið í 30 útköll vegna sjálfsvíga en á sama tíma síðasta árs hafi slík útköll verið 18 talsins.

Þá er í greinargerð tillögunnar fjallað sérstaklega um ástandið meðal barna og ungmenna og minnt á að ungmennaráð borgarinnar hafi á sameiginlegum fundi Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar í febrúar 2017 lagt til að „efla geðfræðslu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkurborgar frá og með haustinu 2019“.

Tillagan hafi verið samþykkt en sé ekki enn komin til framkvæmda. Hins vegar hafi verið tekin saman skýrsla um „geðfræðslu í grunnskólum Reykjavíkur, sem útlistar tillögur starfshóps að framkvæmd geðfræðslu í grunnskólum borgarinnar“.

Þar komi fram að hegðunarvandi barna og unglinga hafi „aukizt til muna og sé sífellt meira áhyggjuefni. Niðurstöður rannsókna á heilsu og líðan íslenzkra barna benda til hærri tíðni geðrænna vandamála íslenzkra barna en barna annars staðar í Evrópu og eru algengustu greiningarnar kvíðaröskun og ADHD. Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis hefur geðlyfjanotkun vegna tilfinninga- og hegðunarerfiðleika aukizt mjög mikið á undanförnum árum.“

Það skiptir verulegu máli, að þessi málefni hafi verið tekin til umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur. Svo vill til að skammt er í að hið sama gerist á Alþingi, þegar lagafrumvörp vegna barnaverkefnis, sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti af stað á fyrstu mánuðum sinnar ráðherratíðar, koma fram og tengjast þessum málaflokki.

Um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins urðu mjög líflegar umræður í borgarstjórn sl. þriðjudag og telja má líklegt að áhrifin af þeim umræðum svo og á Alþingi leiði til þess að önnur sveitarfélög, bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu, snúi sér að sömu verkefnum.

Geðheilbrigðismál eru málaflokkur, sem fólk og flokkar eiga að geta sameinast um. Þetta er málefni, sem hefur ekkert með flokkapólitík að gera, og þaðan af síður hugmyndafræðilegar deilur. Í umræðunum í borgarstjórn kom fram ríkur vilji til slíkrar samstöðu, sem leiddi til þess að meirihluti og minnihluti náðu saman um tilteknar breytingar sem snerust meira um orðalag en efni máls.

Frumkvæði Valgerðar Sigurðardóttur leiddi því til þess, að borgarstjórn samþykkti sérstaka ályktun um geðheilbrigðismál með atkvæðum allra borgarfulltrúa, sem virðist vera óalgengt í ljósi annarra umræðna, sem blönduðust inn í umræður um þessa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Á sama tíma og þessi málefni eru að komast á dagskrá, bæði Alþingis og borgarstjórnar Reykjavíkur – og vonandi annarra sveitarfélaga líka í náinni framtíð – hefur Geðhjálp staðið fyrir átaki til þess að vekja athygli á sjálfsvígum og undirskriftasöfnun til þess að hvetja stjórnvöld til að setja geðheilsu í forgang. Í fyrradag höfðu yfir 31 þúsund manns skrifað undir.

Eitt af því, sem Geðhjálp hvetur til að gert verði, er að byggt verði nýtt húsnæði fyrir geðsvið Landspítalans. Hið sama gerði Helga Vala Helgadóttir, alþingismaður Samfylkingar, í grein í Fréttablaðinu fyrir skömmu.

Það hefur lengi verið ljóst að húsnæði geðdeildar Landspítalans – sem byggt var sérstaklega fyrir þá deild – hentar ekki vel fyrir þá starfsemi. Það á bæði við um staðsetningu og bygginguna sjálfa og fagnaðarefni að hreyfing er vonandi að komast á þau mál.

Eitt af því, sem minnt var á í umræðunum í borgarstjórn, er þörfin á að kostnaður við sálfræðiþjónustu verði niðurgreiddur ekki síður en læknisþjónusta almennt. Það gengur ekki að fólk, sem þarf á sálfræðiþjónustu að halda, leiti hennar ekki vegna þess, að það hafi ekki efni á því. Kannski hefur það þurft einhvern tíma fyrir ráðamenn þjóðarinnar að skilja það, en þegar hér er komið sögu ætti sá skilningur að vera fyrir hendi.

Geðheilbrigði er eitt stærsta viðfangsefni heilbrigðiskerfis okkar nú um stundir og verður það á næstu árum.

Því þurfa að fylgja fjárveitingar í samræmi við það.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is