— Morgunblaðið/Eggert
Icelandair Group flutti 7.502 farþega milli landa í októbermánuði og eru það 98% færri farþegar en í sama mánuði í fyrra. Þá var sætanýting í ferðum þess í október aðeins 35,7% og lækkaði úr 85,2% í októbermánuði 2019.

Icelandair Group flutti 7.502 farþega milli landa í októbermánuði og eru það 98% færri farþegar en í sama mánuði í fyrra. Þá var sætanýting í ferðum þess í október aðeins 35,7% og lækkaði úr 85,2% í októbermánuði 2019.

Framboð félagsins dróst saman um 96% miðað við fyrrgreint samanburðartímabil og nam 47,3 milljónum sætiskílómetra.

Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 741,5 þúsund farþega milli landa og er það 81% minna en yfir fyrstu 10 mánuði ársins 2019.

Innanlandsflug hefur ekki dregist eins mikið saman. Farþegar á þeim vettvangi voru 6.751 í október og fækkaði um 72% frá sama mánuði í fyrra. Í ár hafa 111.694 farþegar tekið sér far með innanlandsfluginu það sem af er ári og nemur samdrátturinn milli ára 54%. Það sem af er ári hafa vöruflutningar fyrirtækisins dregist nokkuð saman eða um 16% og var hlutfallið svipað í október eða 15%.