Rannsóknarvinna Halla Birgisdóttir myndlistarkona og rithöfundur segir frá erfiðri reynslu í bókinni Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá?
Rannsóknarvinna Halla Birgisdóttir myndlistarkona og rithöfundur segir frá erfiðri reynslu í bókinni Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? rekur Halla Birgisdóttir reynslu sína af því að missa tökin á raunveruleikanum og fara í geðrof.

Í bókinni Tók ég eftir því þá eða tók ég eftir því eftirá? rekur Halla Birgisdóttir reynslu sína af því að missa tökin á raunveruleikanum og fara í geðrof. Bókin segir frá því er Halla heldur með sambýlismanni sínum og barni í ferðalag til Madrídar með millilendingu í Lundúnum. Þar verður ljóst að Halla er á leið í geðrof sem ágerist í Lundúnum og endar með því að ekkert verður af ferð til Madrídar heldur er Halla lögð inn á geðsjúkrahús. Í bókinni lýsir hún þessari atburðarás með orðum og fjölda teikninga og lýkur frásögninni þar sem hún áttar sig á því hvað það var sem henti hana, tekur eftir því eftirá.

Aðspurð hvort það hafi ekki verið erfitt að ganga svo nærri sér í frásögninni, að opna sig svo mikið, segir Halla að þegar hún hafi byrjað á verkinu fyrir næstum áratug, þá hafi það sprottið af innri þörf. „Ég birti eina færslu á dag á bloggsíðu og nokkrum árum síðar ákvað ég að setja þær í bókarform og klára söguna. Núna mörgum árum seinna, þegar ég tók upp handritið aftur og fór í þessa útgáfuvinnu, þá velti ég því alveg fyrir mér af hverju væri ég að segja öllum frá þessu en var komin svo langt með þetta að það var erfitt að bakka út úr því. Mér fannst líka mikilvægara að þessi saga fengi að heyrast en að mínar tilfinningar fyrir þessu kæmu í veg fyrir það.“

– Í bókinni segir þú: „Það er svo skrýtið að hafa upplifað eitthvað sem gerðist í alvöru og af mikilli alvöru þar að auki, en eiga bara minningar sem eru óljósar og fjarlægar. Eins og þetta hafi gerst í æsku eða alls ekki gerst yfirhöfuð.“

„Þetta hefur fjarlægst og þess vegna er ég líka glöð að hafa skrifað þetta niður og haldið utan um það. Ég veit ekki alveg hvort það að ég skrifaði þetta niður og kom því einhvern veginn frá mér geri að verkum að þetta sé ekki jafn ljóslifandi, hvort minningarnar myndu ásækja mig meira ef ég lokaði þetta inni og fæli þetta.“

– Á öðrum stað í bókinni segir þú: „Hvernig áttar maður sig á hvaða viðbrögð manns við samskiptum við fólk eru heilbrigð og hver ekki?“ Listamaðurinn sér alls konar hluti sem þeir sjá ekki sem eru ekki listamenn og fer líka yfir alls konar mörk.

„Bæði sem listamaður og sem manneskja sem vill halda sér í andlegu jafnvægi þá stundum er þetta svolítið vegasalt. Ég var á fyrirlestri einu sinni hjá listamanni sem var að kynna verk sín og tala um sköpunarferlið. Hún tók myndir af sjónvarpinu til að ná einhverri hugmynd sem hún fékk. Fyrir mig sem listamann er það kannski eðlilegt að taka myndir af sjónvarpinu til að fanga hugmynd en á sama tíma er það merki um að ég gæti kannski verið að detta í einhverja geðhæð. Þannig að það er svolítið þunn lína þarna á milli.“

Var rannsóknarvinna

– Teikningarnar í bókinni eiga sinn þátt í að gera hana eins góða og hún vissulega er. Eru þær frá þessum tíma, eða ertu að teikna minningar?

„Ég útskrifast af geðdeild 2011 og síðan útskrifast ég úr Listaháskólanum 2013. Útskriftarverkið mitt úr skólanum fjallaði um þessa reynslu mína og í framhaldi af því fór ég að teikna og fanga minningarnar í þessar teikningar. Stundum er ég að teikna myndir eftir ljósmyndum, en listamaðurinn í mér gerði að verkum að þegar ég var úti í London var ég að skrásetja, tók myndir og lét taka myndir af mér þannig að ég á ljósmyndir sem undir eðlilegum kringumstæðum væru ekki til. Ég var svo með útgáfuhóf fyrir bókina og sýndi þar teikningar sem ég var að taka upp úr kassa. Svo á ég líka fullt af krassi í bók sem ég segi frá í sögunni, ég er með sjúkraskýrsluna og sms frá systur minni, þetta var rannsóknarvinna.“ arnim@mbl.is