Grundarfjörður Tökur hafa staðið yfir síðustu vikur á sjónvarpsþáttaröð sem ber vinnuheitið Vitjanir og gerist í litlu sjávarþorpi.
Grundarfjörður Tökur hafa staðið yfir síðustu vikur á sjónvarpsþáttaröð sem ber vinnuheitið Vitjanir og gerist í litlu sjávarþorpi. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Gunnar Kristjánsson Grundarfirði Grundarfjörður er vettvangur átta þátta sjónvarpsþáttaraðar sem væntanlega kemur fyrir almenningssjónir árið 2022.

Úr bæjarlífinu

Gunnar Kristjánsson

Grundarfirði

Grundarfjörður er vettvangur átta þátta sjónvarpsþáttaraðar sem væntanlega kemur fyrir almenningssjónir árið 2022. Það er kvikmyndafyrirtækið Glassriver sem stendur að þessari þáttaröð ásamt erlendum aðilum.

Myndataka, aðallega utanhúss, hefur staðið yfir frá því í byrjun september en lauk um síðustu mánaðamót. Þáttaröðin ber vinnuheitið Vitjanir og fjallar um líf sögupersóna í litlu sjávarþorpi. Það verður spennandi að sjá hvernig til hefur tekist þegar þættirnir birtast á skjánum en vænta má að kunnugleg andlit birtist í einhverjum senunum sem gerast í þorpinu Hólmafirði.

Það má segja að tilkoma þessa kvikmyndahóps hafi verið himnasending þeim sem boðið hafa upp á gistingu í Grundarfirði því þeir sem að verkinu komu, fyrir utan leikarana sjálfa, voru 40-50 manns sem dvöldu hér allan tímann meðan á tökum stóð og það var nóg af auðu gistirými fyrir alla.

Norðurgarður hefur lengst um 130 metra á einu ári og hefur Borgarverk skilað af sér sínum verkhluta en Almenna umhverfisþjónustan í Grundarfirði tekið að sér næsta verkhluta sem er m.a. frágangur á bryggjukanti auk þess að ganga frá viðeigandi lögnum og steypu á þekju og er áætlað að þessum verkhluta ljúki næsta sumar og höfnin verði þá tilbúin til að taka á móti fleiri og stærri skipum. Hvort þar á meðal verði einhver skemmtiferðaskip verður tíminn að leiða í ljós.

Rökkurdagar hafa verið árlegur viðburður hér til fjölda ára. Í ár voru þeir með breyttu sniði í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu en vörpuðu samt birtu og yl í hjarta íbúa en þar bar hæst söngstund sem varpað var út á youtube. Þar kom berlega í ljós enn og aftur hversu Grundarfjörður er ríkur að hæfileikafólki á sviði sönglistar. Slíkt væri þó ekki hægt ef tæknikunnátta væri ekki fyrir hendi en þar munar mest um hljóðtæknimanninn og upptökustjórann Þorkel Mána Þorkelsson sem er algjör listamaður á þessu sviði. Hann er einnig organisti við Grundarfjarðarkirkju, það má sjá á messuhaldi á Covid-tímum en messur og helgistundir eru nú sendar út á youtube nánast hvern sunnudag.

Vélsmiðja Grundarfjarðar hefur í sumar verið að stækka húsnæði sitt með viðbyggingu og var sú aðstaða tekin í notkun um síðustu helgi. Í hinu nýja húsnæði verður almennt bifreiðaverkstæði með allri almennri verkstæðisþjónustu en varahlutaverslun verður þar sem bifreiðaþjónustan var áður. Vélsmiðjan er til húsa austast í bænum, inn við steypustöð Almennu umhverfisþjónustunnar.

Jólavertíð fer nú senn af stað og kannski fyrr en ella vegna hins undarlega ástands sem við búum við á þessum tímum. Grundfirskir þjónustuaðilar hafa tekið höndum saman og benda fólki á að styðja við þá sem sinna þjónustu við íbúana hver á sínu sviði og hleypa jólavertíðinni af stokkunum nú um helgina.