Verk að vinna Ívar Kristinsson og Fany Larota Catunta tóku þátt í birkiverkefninu ásamt dætrum sínum þremur; Gabrelíu Sif, Andreu Lind og Júlíu Líf, og sáðu birkifræi í Selfjalli. Sú yngsta í hópnum var aðeins tveggja mánaða.
Verk að vinna Ívar Kristinsson og Fany Larota Catunta tóku þátt í birkiverkefninu ásamt dætrum sínum þremur; Gabrelíu Sif, Andreu Lind og Júlíu Líf, og sáðu birkifræi í Selfjalli. Sú yngsta í hópnum var aðeins tveggja mánaða. — Ljósmynd/Kristinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Kristinn H. Þorsteinsson neitaði því ekki að titla mætti hann sem bankastjóra í birkibankanum þegar haft var samband við hann í vikunni.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Kristinn H. Þorsteinsson neitaði því ekki að titla mætti hann sem bankastjóra í birkibankanum þegar haft var samband við hann í vikunni. Hann er framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs og í húsakynnum félagsins í Guðmundarlundi hefur verið myndarlegur bingur af fræjum sem bíða þess að vera sáð víða um land.

Þar var tekið á móti um 30 milljónum fræja af höfuðborgarsvæðinu, sem af gætu sprottið milljónir birkitrjáa ef öll skilyrði verða fræinu hagstæð en árangurinn kemur í ljós á næstu árum. Kristinn er ánægður með árangurinn í landsátaki í söfnun birkifræja í haust og segist sannfærður um að framhald verði á með mikilli þátttöku almennings.

Fjölskyldur og hópar

„Mjög mikið var um að fjölskyldur, vinnustaðahópar og skólafólk legði okkur lið. Ótrúlega margir voru tilbúnir að taka þátt í þessu verkefni til að klæða landið skógi og endurheimta fyrri gæði og um leið vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ segir Kristinn um þessa nýju almenningsíþrótt.

Tugir sjálfboðaliða dreifðu fræi í landi Kópavogsbæjar í Selfjalli við Lækjarbotna tvo laugardaga í haust. Kristinn segir að afturkippur hafi komið í sáningu vegna kórónuveikinnar því ekki hafi verið hægt að stefna fólki saman í þeim aðstæðum.

Þráðurinn verður tekinn upp við sáningu næsta vor í samvinnu Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar. Kristinn segir að slíkt hið sama verði gert víða á landinu og þá er talsverð innistæða til að taka út úr fræbankanum. Fræin sem eftir eru verða þurrkuð og geymd í kæli eða frysti í bækistöðvum Landgræðslunnar.

Einstaklingar og hópar dreifðu fræi á eigin vegum víða um land í haust. Til að mynda söfnuðu og dreifðu margir skólahópar, allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla, og átján Lionsklúbbar réðust í fræsöfnun og dreifingu nú í haust.

Nú þegar hefur verið sáð töluverðu af fræi á Hekluskógasvæðinu. Í ráði er að nýta birkifræ þar og á Hólasandi samhliða kjötmjölsdreifingu í svæði sem auðguð hafa verið með gori eða moltu.

Mikið var af birkifræjum í ár, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi.

Áberandi var hversu mikið fræ var á tilteknum svæðum, svo sem í Þórsmörk og í Steinadal í Suðursveit og á birki ættuðu úr Bæjarstaðaskógi. Sums staðar var lítið sem ekkert fræ að finna, sérstaklega á stöðum þar sem birki er mjög lágvaxið og kræklótt svo sem í Hítardal á Vesturlandi. Möguleg skýring er sú að eftir því sem birki er meira blandað fjalldrapa treystir það meira á dreifingu og endurnýjun með rótarskotum frekar en með fræi, samkvæmt upplýsingum frá Skógræktinni.

Fræsöfnunarverkefnið var skipulagt af Landgræðslunni og Skógræktinni í samstarfi við Bónus, Terra, Prentmet Odda, Lions og Landvernd. Síðar komu ýmsir aðrir aðilar myndarlega að verkefninu, til að mynda Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær.