Þetta var mikið reiðarslag og ég gjörsamlega trylltist. Svo ég segi það bara beint út. Síðan dofnaði ég upp og var eins og liðið lík.

Það er svo merkilegt að sömu atburðir geta ítrekað orðið á vegi manns í þessu lífi. Eins og flestir Íslendingar hafði ég heyrt um sjóslysið hörmulega þegar síldarbáturinn Stuðlaberg NS 102 fórst með ellefu manna áhöfn út af Stafnesi í ofsaveðri í febrúar 1962. Hafði þó enga sérstaka tengingu við þann skaða og kynnti mér hann ekki sérstaklega fyrr en ég tók viðtal við Ragnheiði Guðmundsdóttur, ekkju skipstjórans, Jóns Hildibergs Jörundssonar, hér í blaðið í ársbyrjun 2017. Eftir að hafa hlýtt á frásögn hennar fór ég að fletta gömlum blöðum og tengja nöfn og andlit við slysið. Sjóskaðar vekja alltaf mikla athygli og hluttekningu hjá þjóð sem hefur að sönnu goldið hafinu sinn toll gegnum aldirnar enda þótt slíkum slysum fari til allrar hamingju fækkandi í seinni tíð. Jón Hildiberg dó frá Ragnheiði og fjórum börnum þeirra en bróðir hans, Kristján, fórst einnig með bátnum. „Þetta var mikið reiðarslag og ég gjörsamlega trylltist. Svo ég segi það bara beint út. Síðan dofnaði ég upp og var eins og liðið lík,“ sagði Ragnheiður í viðtalinu.

Síðar sama ár skrifaði ég heila bók um mann, Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi og Fjallabyggð, sem missti föður sinn, Birgi Guðmundsson matsvein, í þessu sama slysi. Birgir, eða Biggi nælon, eins og hann var kallaður, dó frá átta börnum og einu ófæddu að auki. „Yngsti bróðir minn var í móðurkviði þegar pabbi dó og hlaut nafn hans. Hann fæddist með tennur sem rakið var til þess hversu mikið áfall þetta var fyrir móður hans á meðgöngunni,“ segir Gunnar.

Enn verður Stuðlabergið á vegi mínum en í tölublaðinu sem þú ert með í höndunum ræði ég við Guðnýju Laxfoss, sem lengi hefur búið í Bandaríkjunum, en hún missti bróður sinn, Gunnar Valsberg Laxfoss háseta, í slysinu, aðeins sautján ára að aldri. Móðir Guðnýjar hafði látist nokkrum mánuðum áður og þar sem faðirinn var ekki inni í myndinni bar Gunnar ábyrgð á heimilinu, henni og yngri bróður þeirra. Enginn þessara manna fannst og hvíla þeir því allir í votri gröf. Aðeins eitt lík rak á fjörur við Fuglavík, af Birni Þorfinnssyni stýrimanni, sem var frækinn sundmaður.

Guðný Laxfoss er um margt merkileg kona, meðal annars fyrir þær sakir að hún er einn af fáum Íslendingum, ef ekki sá eini, sem kynntust rokkkónginum Elvis Presley persónulega. Synti í sundlauginni í Graceland og fór með Elvis í bíó árið 1963 en um þær mundir var hann að slá sér upp með mágkonu hennar, Jeanette Emmons. Þetta og fleira rifjar Guðný upp í viðtalinu.