Jóhann Pétur Guðmundsson fæddist 22. janúar 1924. Hann lést 20. október 2020.

Útför Jóhanns fór fram 31. október 2020.

Árin okkar hjónanna á Mælifelli urðu ellefu. Allan þann tíma og æ síðan áttum við traustan vin og samstarfsmann í Jóa okkar í Stapa. Ófáar voru fallegu vísurnar sem hann orti til okkar, málverk fengum við að gjöf og hann vann ötull með okkur að endurnýjun og fegrun staðarins. Þar með eru gáfur hans eigi upp taldar, bóndinn átti á þeim árum stærsta rýmið í hjarta hans og býlið hans að Stapa.

Það má segja að Jóhann Pétur Guðmundsson, smiðurinn, og sonur hans og nafni hafi flutt inn í gamla góða húsið með okkur vorið 1972. Það var hentugast og sparaði margar ferðir. Þvílíkur lúxus að hafa þá við höndina og njóta starfa þeirra, vinsemdar og dugnaðar. Svo fóru þeir í útreiðartúra með gesti inn á milli, tóku í spil og spjallað var og hlegið.

Jói var einn besti hagyrðingur landsins og fór skáldanafnið honum einnig vel. Hann var ótrúlega fljótur að kasta fram fallegum og auðvitað rétt stuðluðum vísum. Hann orti líka mörg lengri ljóð og má nefna að frumsamin brúðkaupsljóð sendi hann báðum börnum okkar þegar þar að kom. Við vígslu Árgarðs, félagsheimilisins okkar, sem byggt var á þessum árum, kom m.a. þessi vísa frá hirðskáldi hreppsins:

Árgarður er okkar sómi,

Árgarð styðji gæfan sanna.

Árdagsbjarmi um Ár garð ljómi,

ár og síð í hugum manna.

Myndlistina var sjaldan tími til að stunda fyrir smiðnum og bóndanum. En málverk hans af Reykjum í Tungusveit er til mikillar prýði í skálanum í Árgarði og var það gjöf frá Kvenfélagi Lýtingsstaðahrepps. Einnig hangir þar uppi geysistóri táknræni trélykillinn sem hann smíðaði handa oddvita til að afhenda formanni byggingarnefndar við vígslu hússins 1. desember 1974.

Málverk af Mælifelli málaði Jóhann og gaf okkur er við fluttum til Kaupmannahafnar. Lárus sonur okkar, sem varð eftir í Danmörku, og fjölskylda hans hafa mikla ánægju af því stóra og dýrmæta verki sem minnir daglega á fegurð Skagafjarðar.

Í ellinni átti Jóhann heima í Varmahlíð. Aldrei fór ég þar um án þess að fá að hitta hann og fljótur var hann að útbúa myndarlegt kaffiborð fyrir gestina. En fara út á sjúkrahús, þess þurfti hann ekki þótt kominn væri hátt á tíræðisaldur, hvað þá nota göngugrind og sýndi hann hvernig hann gat stutt sig við borð og bekki á leið milli herbergja til að sanna mál sitt. Sem betur fer naut hann þó vel dvalarinnar þar í lokin.

Söknuður er að góðum vini og árunum sem hann var einn aðalleikarinn á lífssviði fjölskyldunnar á Mælifelli. Innilegar samúðarkveðjur eru sendar frá okkur til fjölskyldu hans og hinna mörgu vina og velunnara skáldsins frá Stapa.

Guðrún L. Ásgeirsdóttir.