Hermann Albert Jónsson fæddist á Sléttu í Sléttuhreppi við Ísafjarðardjúp 12. apríl 1940. Hann lést á Landspítalanum 25. október 2020.

Foreldrar Hermanns voru Jón Guðnason bóndi og Emilía Albertsdóttir húsfreyja. Systkini hans voru: Guðni, Hulda, Hanna, Gísli og Ingvi Jónsbörn. Þau eru nú öll látin.

Eftirlifandi eiginkona Hermanns er Svana Ólafsóttir, f. 10. september 1943 í Vopnafirði. Hermann og Svana gengu í hjónaband 17. ágúst 1962 og eignuðust tvo syni, þá Jón og Höskuld.

Hermann var menntaður húsasmíðameistari og starfaði við iðnina alla sína starfsævi.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Kær frændi er látinn, Hermann Albert eða Hemmi eins og við kölluðum hann alltaf, sá síðasti af sinni kynslóð, þeirra sem fæddust í Bólhúsinu á Sléttu í Jökulfjörðum. Hann var næstyngstur af 6 börnum sem upplifðu miklar breytingar á högum sínum þegar flutt var á Ísafjörð eftir að jörðin fór í eyði 1947. Öll voru systkinin mjög glaðvær, samheldin, söngelsk og hlý og var Hemmi engin undantekning þar á. Hemmi var alltaf mjög bóngóður, „elskan mín, við björgum þessu“ var alltaf viðkvæðið þegar maður leitaði ásjár hjá honum. Mikil samskipti voru á milli Hemma og föður okkar, Guðna, enda voru þeir perluvinir og miklir félagar.

Við viljum votta Svönu, eiginkonu Hemma, og börnum og fjölskyldu þeirra okkar dýpstu samúð og þakka fyrir allar góðu stundirnar í gegnum lífið.

Dagný, Selma, Jón Ólafur

og Edda Ýr.

Fallinn er frá vinur og samstarfsmaður til margra ára, Hermann Albert Jónsson. Hemmi eins og hann var alltaf kallaður fæddist á Sléttu í Sléttuhreppi við Ísafjarðardjúp 12. apríl 1940. Það hefur sjálfsagt verið harðbýlt á þessum stað en sjórinn og bjargið skapaði möguleika til að lifa af. Það þurfti þó töluvert til því systkinin voru alls sex talsins en þau eru nú öll látin. Þegar Hemmi var um fermingu flutti fjölskyldan til Ísafjarðar. Fljótlega fór drengurinn að vinna fyrir sér með sjómennsku, því það þurfti að færa björg í bú. Hann var á síld á sumrin og oft var það allslarksamt eins og staðið var að síldveiðum í þá daga á litlum mótorbátum. Það var svo í einni landlegunni á Austfjörðum að hann kynntist ungri og fallegri stúlku frá Vopnafirði, henni Svönu sinni, og þá varð ekki aftur snúið. Hermann vildi ekki gera sjómennsku að ævistarfi sínu, hafði hann hug á því að læra húsgagnasmíði en það gekk ekki eftir. En það varð úr að hann komst í nám í húsasmíði hjá miklum heiðursmanni, Jóni Hannessyni byggingarmeistara. Það var hjá Jóni Hannessyni sem fundum okkar Hermanns bar saman, þar myndaðist vinskapur sem entist ævilangt. Fyrstu árin bjuggu Hemmi og Svana í Reykjavík en fljótlega fór hann að huga að húsbyggingu. Hann fékk lóð að Hraunbraut 14 í Kópavogi undir tvíbýlishús og byggði það í samvinnu við Jakob Jensson húsasmið. Þetta var auðvitað ofurmannlegt átak hjá ungum félitlum húsasmið sem nýkominn var úr námi. En með samstöðu og samhaldssemi þeirra Svönu tókst þeim að gera sér yndislegt heimili á Hraunbrautinni. Það sem meira var, foreldrar hans fengu litla íbúð í húsinu og bjuggu þar til æviloka. Hermann og Svana eignuðust tvo syni, þá Jón, fæddur 1962 og Höskuld, fæddur 1966. Jón lærði húsasmíði hjá föður sínum og starfar við iðnina enn í dag, en Höskuldur er tölvunarfræðingur hjá utanríkisþjónustunni. Þegar drengirnir voru komnir úr föðurhúsum minnkuðu þau hjónin við sig og bjuggu síðustu árin að Álfkonuhvarfi 39 í Kópavogi. Árið 1972 hófst nýr kafli í vinskap okkar Hermanns þegar við stofnuðum fyrirtækið HB innréttingar sem í upphafi var starfrækt við Auðbrekku í Kópavogi. Árið 1978 var fyrirtækið flutt í framtíðarhúsnæði á Smiðjuvegi 12, þar var það starfrækt allt til ársins 2006. Þetta voru því orðin heil 34 ár sem við Hermann störfuðum saman í sjálfstæðum rekstri. Allan þann tíma bar aldrei neinn skugga á samstaf okkar sem reyndist mjög farsælt í alla staði. Með þessum fáu orðum vil ég þakka þér einlæga vináttu í gegnum tíðina. Allt á sinn endapunkt, svo er einnig með lífið. Nú ertu horfinn á vit feðranna. Kæri Hermann, takk fyrir allt og allt! Svana, Jón og Höskuldur, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna. Guð blessi minningu vinar míns Hermanns A. Jónssonar.

Björgvin Elíasson.