Svavar Pálsson
Svavar Pálsson
Eftir Svavar Pálsson: "Tækifærin til nýsköpunar, innviðanýtingar og samvinnu milli sýslumannsembættanna og annarra opinberra aðila hafa aldrei verið auðsóttari."

Sýslumannsembættin fara með framkvæmdarvald ríkisins í héraði eftir því sem lög og reglur mæla fyrir um. Á þeim grunni hafa þau um langa tíð annast fjölbreytt verkefni hins opinbera um land allt. Nú ber svo við að tækifærin til fjárfestingar og nýsköpunar á vettvangi embættanna hafa aldrei verið aðgengilegri.

Embættin hafa þá sérstöðu meðal ríkisstofnana að hin fjölbreyttu verkefni sem þau sinna eiga sér óvenju litríka lagastoð og varða nær öll fagráðuneyti Stjórnarráðsins. Net 27 starfsstöðva níu embætta um land allt veitir íbúum, fyrirtækjum og sveitarfélögum aðgang að fjölþættri þjónustu ríkisins á þessum grunni. Reynt og fjölhæft starfsfólk embættanna telur nú um 240 manns.

Tækifæri í stafrænni vinnslu og þjónustu

Auk hefðbundinna kjarnaverkefna sýslumanna hefur sérverkefnum, sem einstök embætti annast á landsvísu, fjölgað umtalsvert og eru þau nú 35 talsins. Þessi þróun byggist á stefnu stjórnvalda, áhuga og eftirfylgni alþingsmanna og starfsfólks stjórnarráðsins auk þátttöku ríkisstofnana og ráðuneyta. Sérverkefnin eru margs konar en þau varða flest krefjandi, viðkvæm og flókin viðfangsefni sem starfsfólk embættanna sinnir af kostgæfni um land allt og reynslan er sannarlega góð.

Ef litið er fram hjá Covid-19 hefur fátt meiri áhrif á starfsemina þessa dagana en stafræn þróun. Ýmsir innviðir embættanna taka nú stakkaskiptum á grundvelli samstarfs við Stafrænt Ísland og fleiri aðila. Og tækifærin blasa við! Landfræðileg staðsetning vinnslu, greiningar og þjónustu vel valinna verkefna hins opinbera hefur aldrei haft minni þýðingu. Gildir það jafnt um sérfræðilegt vinnuframlag eða hvort verkefni eru unnin á höfuðborgarsvæði eða landsbyggðum. Þetta hafa mörg nágrannalönd okkar nýtt sér í mun meiri mæli en hér þekkist. Nægir að nefna þverpólitíska stefnu danskra stjórnvalda, Regeringens Udflytniningsplan, sem staðið hefur frá árinu 2015 og áætlað er að skili um 8.000 opinberum störfum utan Kaupmannahafnarsvæðisins.

Stefnuframkvæmd Alþingis og ríkisstjórnar

Stofnanaþróun síðustu ára hérlendis einkennist af sameiningum og fækkun ríkisstofnana og eru sýslumannsembættin þar ekki undanskilin. Rifjað skal upp að eitt þriggja höfuðmarkmiða löggjafans við sameiningu embættanna um „[a]ð efla stjórnsýslu sýslumannsembættanna og gera þau betur í stakk búin til að taka að sér aukin verkefni“ var stutt sannfærandi rökum. Jafnframt liggur fyrir að núverandi ríkisstjórn starfar á grundvelli stefnumiða um nútímavæðingu hins opinbera, blómlega byggð og jöfn tækifæri. Jafnvel fjármálaáætlun 2021-2025 og fjárlagafrumvarp 2021 leggja grunn að sérstakri fjárfestingu í opinberum störfum á landsbyggðunum.

Áform jafnt sem árangur Alþingis og ríkisstjórna fyrr og nú blasa því við í eigin orðum og fyrri gjörðum. Á sama tíma hafa tækifærin til nýsköpunar, innviðanýtingar og samvinnu milli sýslumannsembættanna og annarra opinberra aðila aldrei verið auðsóttari. Stafrænn veruleiki á grundvelli traustra innviða, færni og fjölbreyttrar reynslu mannauðs gerir sýslumannsembættin enn fýsilegri vettvang framfara með hverjum deginum sem líður. Einhver myndi tala um dauðafæri í þessu sambandi. Það er því sérstök ástæða til að hvetja stjórnvöld til að fylgja eftir fjárfestingu í stafrænum innviðum og vista enn fleiri opinber verkefni og störf hjá sýslumannsembættunum.

Höfundur er sýslumaður á Norðurlandi eystra. svavar.palsson@syslumenn.is