[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Flótti er brostinn á meðal samstarfsaðila ríkisins í rekstri hjúkrunarheimila. Nokkur sveitarfélög treysta sér ekki til að greiða með rekstrinum lengur og stórar sjálfseignarstofnanir eru einnig að hugsa sinn gang. Stjórnarformaður Öldungs hf., sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún, telur að ríkið ráði ekki við að byggja upp jafnmörg hjúkrunarrými og þörf verður á í framtíðinni með því fyrirkomulagi sem hefur verið. Kerfið sé of þungt í vöfum. Skynsamlegt sé að láta einkafyrirtæki um hluta uppbyggingarinnar.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Flótti er brostinn á meðal samstarfsaðila ríkisins í rekstri hjúkrunarheimila. Nokkur sveitarfélög treysta sér ekki til að greiða með rekstrinum lengur og stórar sjálfseignarstofnanir eru einnig að hugsa sinn gang. Stjórnarformaður Öldungs hf., sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún, telur að ríkið ráði ekki við að byggja upp jafnmörg hjúkrunarrými og þörf verður á í framtíðinni með því fyrirkomulagi sem hefur verið. Kerfið sé of þungt í vöfum. Skynsamlegt sé að láta einkafyrirtæki um hluta uppbyggingarinnar.

Rekstraraðilar hjúkrunarheimila skrifuðu allir undir nýja þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands í lok árs 2019. Fram hefur komið áður að margir skrifuðu undir með óbragð í munni. Hjúkrunarheimilin höfðu verið rekin allt árið 2019 án samnings þótt samtök þeirra hefðu ítrekað óskað eftir samningum. Í fjárlögum ársins 2019 var fjárveiting vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar sem átti að deila á milli heimilanna en það var ekki hægt nema samningar væru í gildi. Hjúkrunarheimilin skrifuðu undir til að sú fjárveiting félli ekki dauð niður. Töldu betra að fá það en ekkert. Í þessum samningum er sex mánaða uppsagnarfrestur sem sveitarfélög hafa verið að nýta sér að undanförnu.

Ekki líkur á framlengingu

Mörg sveitarfélög hafa verið að greiða með rekstri hjúkrunarheimila, vegna lágra daggjalda, þótt viðurkennt sé að verkefnið sé heilbrigðisþjónusta og á verksviði ríkisins en ekki sveitarfélaga. Akureyrarbær hefur sagt sig frá rekstri öldrunarstofnana og losnar um áramót. Bærinn gaf ekki kost á framlengingu. Vestmannaeyjabær og Sveitarfélagið Hornafjörður sögðu samningum upp á svipuðum tíma og eiga að losna um eða upp úr áramótum. Fjarðabyggð hefur einnig sagt upp sínum þjónustusamningi við ríkið og tekur uppsögnin gildi 1. apríl. Fleiri sveitarfélög fylgjast með þróuninni en hafa ekki tekið ákvörðun um framhaldið, eftir því sem best er vitað.

Öll hafa sveitarfélögin í raun áhuga á að sinna þessari nærþjónustu við íbúana, en ekki á þeim forsendum sem nú eru gefnar. Sérstaklega ekki á þessum erfiðu tímum í rekstri sveitarfélaga þegar endurskoða þarf öll útgjöld. Sjúkratryggingar hafa óskað eftir því að sveitarfélögin haldi rekstrinum áfram í átta mánuði, eftir að uppsögn tekur gildi, í tilviki Vestmannaeyja og Hornafjarðar, fram í ágúst eða september. Forsendan er sú að þá muni liggja fyrir niðurstaða úr vinnu verkefnahóps heilbrigðisráðherra sem er að greina raunverulegan kostnað við rekstur hjúkrunarheimila og væntanlega þá aðgerðir ríkisins í kjölfarið.

Vestmannaeyjabær og Sveitarfélagið Hornafjörður eru í viðræðum við Sjúkratryggingar Íslands um málið. Matthildur Ásmundardóttir, sveitarstjóri á Höfn, segir að ef hægt verði að hafa reksturinn á núlli næsta árið sé sveitarfélagið til í framlengingu. Telur hún ekki líklegt að samningar náist. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, telur framlengingu ekki góðan kost fyrir sveitarfélagið, eins og staðan er í dag. Þótt bæjarstjórarnir vilji ekki fara út í efnisatriði samningaviðræna má ráða af orðum þeirra að Sjúkratryggingar séu ekki tilbúnar til að ábyrgjast skaðleysi sveitarfélaganna af framlengingu samninga.

Má því búast við að verkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands aukist verulega í byrjun næsta árs, það er að segja ef henni verður falið að taka að sér rekstur hjúkrunarheimilanna Skjólgarðs og Hraunbúða, með alls 65 hjúkrunarrými.

Þarf að finna leiðir

Þeir sem standa að stórum sjálfseignarstofnunum ætla að reyna að þrauka í eitt ár til viðbótar, að því er fram kom í einni Morgunblaðsgrein Gísla Páls Pálssonar, forstjóra Grundarheimilanna og formanns Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ljóst er að þessar stofnanir geta ekki hleypt sér í miklar skuldir til að greiða niður rekstur sem ríkið á að kosta. Til tals hefur komið meðal sjómannasamtakanna sem standa að Hrafnistu hvort hægt væri að breyta heimilum í íbúðir og leigja eða selja. Það er dæmi um hugsun sem læðist að ábyrgu fólki sem þarf ekki aðeins að gæta hagsmuna heimilismanna heldur einnig þeim eignum sem því hefur verið treyst fyrir. Aðrir hafa nefnt ferðaþjónustu í þessu sambandi en hún er ekki málið í dag.

Hvar lenda þessi heimili annars staðar en hjá ríkinu, þegar staðan í rekstrinum er með þessum hætti?

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og hjúkrunarheimilisins Hvamms á Húsavík, segir almennt ekki gott að hjúkrunarheimilin fari frá sveitarfélögunum til ríkisins. Það geti vissulega átt við á minni stöðum þar sem heilbrigðisstofnanir eru með hliðstæða þjónustu og hægt að hagræða með samrekstri. Hann segir þó skiljanlegt að sveitarfélögin segi sig frá rekstrinum, daggjöldin fylgi ekki auknum kostnaði og þau ráði ekki við hagræðingarkröfu ríkisins. Reksturinn verði sífellt þyngri og að lokum gefist menn upp. „Mér finnst að það þurfi að finna leið til að leiðrétta grunninn, þannig að sveitarfélögin fáist til að vera með þennan rekstur, þar sem það er skynsamlegt,“ segir Jón Helgi.

Kostir við einkaframkvæmd

Við vanda dagsins í dag bætist framtíðarvandinn, sem fjallað var um í grein í blaðinu í fyrradag. Hvernig á að standa að uppbyggingu þjónustu aldraðra sem fer ört fjölgandi á næstu árum og áratugum? Þar á meðal þarf að byggja fjölda hjúkrunarheimila. Hvert heimili kostar 4-5 milljarða króna.

Getur ríkið séð um uppbyggingu og rekstur þegar stöðugt fækkar þeim sem vilja vinna með því að þessum málum?

Þórir Kjartansson, stjórnarformaður Öldungs hf. sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún, telur að ríkið ráði ekki við að byggja upp jafnmörg hjúkrunarrými og þörf verður á með því fyrirkomulagi sem hefur verið. Kerfið sé hreinlega of þungt í vöfum. Það sýni sagan. „Ríkið hefur verið að byggja um það bil eitt hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu á hverjum fimm árum en þörfin í framtíðinni er margföld,“ segir Þórir og kallar eftir breyttu pólitísku viðhorfi ráðamanna til einkaframkvæmdar í byggingu hjúkrunarheimila. Skynsamlegt sé að láta einkafyrirtæki um hluta uppbyggingarinnar, eins og gert er annars staðar á Norðurlöndunum.

Þórir fullyrðir einnig að einkarekin hjúkrunarheimili séu að minnsta kosti jafn hagkvæm í rekstri og stofnanir með öðru formi reksturs og þau séu jafnframt leiðandi í tækni og háu þjónustustigi. Segist hann hafa boðið fulltrúum heilbrigðis- og fjármálaráðuneyta að sýna þeim útreikninga um hagkvæmni einkareksturs en það boð hafi ekki verið þegið. Það segi sína sögu.

Vantar skýrari stefnu

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, bendir á að Íslendingar hafi lengi treyst á þjónustu félagasamtaka á heilbrigðissviði, svo sem í rekstri hjúkrunarheimila, SÁÁ og Krabbameinsfélags Íslands, svo dæmi séu tekin. Nú séu blikur á lofti með afstöðu ríkisins. Raunar vanti skýrari stefnu um það hvað ríkið vilji. „Því má velta fyrir sér hvort ríkið sé betur í stakk búið til að reka alla þessa þjónustu en sjálfseignarstofnanir og félagasamtök. Ég hef á tilfinningunni að starfsemin og kostnaður blási frekar út hjá ríkinu en hjá samtökum þar sem horfa þarf í það hvert hver króna fer,“ segir María.

Íbúar greiða hluta kostnaðar

Hjúkrunarheimili fá daggjöld frá Sjúkratryggingum Íslands, út á hvern dag sem heimilisfólk býr í sínu herbergi. Daggjaldið er misjafnt á milli heimila enda ræðst það meðal annars af hjúkrunarþyngd einstakra heimilismanna og síðan fá smærri heimilin sérstaka ábót. Daggjaldið er nú að meðaltali 38.449 krónur. Það samsvarar um 1.190 þúsund krónum á mánuði.

Heimilisfólk getur þurft að greiða hluta af þessu gjaldi. Markið er við tæpar 100 þúsund krónur á mánuði, eftir skatt, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Tryggingastofnun reiknar kostnaðarþátttökuna út og rennur hún þá til Sjúkratrygginga Íslands því hjúkrunarheimilið fær aðeins daggjaldið eða ígildi þess.

Hins vegar þarf viðkomandi hjúkrunarheimili að innheimta hjá íbúum kostnaðarhlutdeildina og ber ábyrgðina ef það tekst ekki. Hafa forystumenn hjúkrunarheimilanna kvartað undan þessu hlutverki, að standa í innheimtu fyrir ríkið hjá skjólstæðingum sem þeir eru að þjóna.

Margir heimilismenn eru með það lágar tekjur að þeir greiða ekki kostnaðarhlutdeild. Ekki hefur tekist að afla upplýsinga um hversu stórt hlutfall það er og heldur ekki hvað greiðsluþátttaka þeirra sem greiða er mikil að meðaltali.

Forystumenn hjúkrunarheimilanna kvarta mjög undan því að daggjöldin dugi ekki fyrir útgjöldum heimilanna, eins og fram hefur komið í greinum síðustu daga. Ekki sé gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna hjúkrunar en daggjöld skorin flatt niður um hálft prósent á ári. Einn forstjóri hafði þó samband við blaðið og vildi vekja athygli á því að staðan væri misjöfn. Núverandi daggjöld dygðu sumum heimilanna ágætlega.

Erfitt er að átta sig á fjárveitingum til hjúkrunarheimila því þær eru ekki sundurliðaðar í fjárlögum. Til dæmis er ekki hægt að sjá hvaða heimili eru undir liðnum „hjúkrunarheimili“ í fjárlögum. Svo eru hliðstæðar stofnanir Landspítalans og heilbrigðisstofnanir á föstum fjárlögum.

Hjúkrunarheimili á flakki

Vopnafjarðarhreppur tók yfir rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar af ríkinu í byrjun árs 2013. Tap hefur verið á rekstrinum öll árin, samtals 175 milljónir króna, sem greitt hefur verið úr sveitarsjóði. Vopnafjarðarhreppur hefur sent heilbrigðisráðuneytinu kröfubréf þar sem farið er fram á að þessi reikningur verði greiddur og tryggt verði nægt fjármagn svo hægt sé að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til reksturs hjúkrunarheimila.

Sundabúð er meðal minnstu hjúkrunarheimila landsins, með 10 hjúkrunarrými og eitt sjúkrarými að auki. Athyglisvert er að það hefur verið á flakki á milli ríkis og sveitarfélags í mörg ár. Hreppurinn rak heimilið til ársins 2000 en óskaði þá eftir að Heilbrigðisstofnun Austurlands tæki við. Ellefu árum síðar ákvað heilbrigðisstofnunin að loka heimilinu vegna niðurskurðar á framlögum til stofnunarinnar og óhagkvæmrar rekstrareiningar á Vopnafirði. Sveitarfélagið vildi tryggja að þjónusta við eldri borgara héldist í heimabyggð og tók aftur við í byrjun árs 2013.

Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að skila þjónustunni aftur til ríkisins. Beðið sé eftir svari yfirvalda heilbrigðismála við kröfubréfinu og vekur athygli á því að einnig vinni starfshópur að greiningu á stöðunni.

*Á mánudag: Lokagrein. Sjónarmið stjórnvalda og fulltrúa í velferðarnefnd Alþingis og fleiri viðhorf.