Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson
Eftir Þorstein Siglaugsson: "Ég get ekki einblínt á eigin hagsmuni þegar ég stend frammi fyrir þeim hörmungum sem þessi röklausi óttafaraldur er að valda heimsbyggðinni."

Ég er rúmlega fimmtugur, rétt svo innan þess aldurshóps sem er í einhverri hættu vegna Covid-19. Ef ég smitast er mögulegt að ég gæti dáið úr pestinni. Líkurnar eru ekki miklar, en þær eru fyrir hendi.

Ég veit að útgöngubönn, samkomubönn, lokanir skóla og fjarlægðarmörk veita mér vernd, sé þeim viðhaldið eins lengi og með þarf. Ég veit að það verða 2-3 ár í það minnsta (ég reyni að forðast óskhyggju, bæði varðandi bóluefni og að tekin verði upp markviss vinnubrögð til að vernda viðkvæma hópa).

Heildarmyndin er ógnvekjandi

En ég veit líka að allar þessar aðgerðir munu án nokkurs minnsta vafa verða miklu fleira fólki að aldurtila en þær bjarga. Ég veit þetta vegna þess að ég fylgist með fréttum, kynni mér rannsóknir og afla mér upplýsinga víðs vegar úr heiminum, beint og óbeint. Og ég leitast við að setja þessar upplýsingar í samhengi.

Ég veit til dæmis að ef fólki undir hungurmörkum fjölgar um helming, líkt og Sameinuðu þjóðirnar spá nú, fyrst og fremst vegna þess að bönn og lokanir koma í veg fyrir að fátækasta fólkið geti séð sér farborða, og ef níu milljónir dóu úr hungri á síðasta ári, þá megum við búast við að níu milljónir til viðbótar deyi úr hungri á þessu ári og því næsta.

Ég veit líka að það má búast við á milli fimm og þrjátíu ótímabærum dauðsföllum fyrir hvert þúsund sem missir vinnuna. Það merkir að fyrir hverjar 100 milljónir sem verða atvinnuleysi að bráð vegna lokana og hindrana gætu hálf til þrjár milljónir manns dáið. Ég veit að menntun barna og ungmenna bíður mikinn skaða, sérstaklega þeirra sem standa höllustum fæti, að við dæmum mörg börn til óhamingju og sköðum heilsu þeirra – það vekur mér óhug að sjá ung börn þvinguð til að bera daglangt grímu sem heftir andardrátt þeirra. Og ungt fólk fær ekki störf, gefst upp á námi, glatar voninni. Og það að glata voninni dregur marga til dauða.

Samfélagsgæðum fórnað til að fresta því óumflýjanlega

Ég veit líka að þau grunnkerfi sem halda velferð okkar uppi skaðast varanlega. Við sjáum nú þegar áhrifin á heilsugæsluna, bólusetningar barna, greiningar alvarlegra sjúkdóma. Og þegar fjármagnið fer í alvöru að þverra hættum við að geta meðhöndlað fólk sem við hefðum annars getað meðhöndlað. Þannig munu milljónir deyja.

Nú þegar hefur ríflega milljón manns dáið úr Covid-19, og ef miðað er við nýjustu tölur um dánartíðni má búast við að 3-5 milljónir gætu dáið úr pestinni áður en yfir lýkur – því pestin lýkur sínu verki, hún breiðist út, sama hvað reynt er til að tefja fyrir. En þetta verða alltaf langtum færri en þeir sem verða faraldri hins röklausa ótta að bráð á endanum.

Eina viðhorfið sem mér er unnt að hafa

Ég veit að allar þessar aðgerðir sem fylgja óttanum við pestina draga úr líkunum á að ég smitist. En þegar ég spyr mig þeirrar spurningar, vitandi það sem ég veit nú þegar, hvort ég geti yfirleitt samþykkt að allt sem hægt er sé gert til að vernda mig, er niðurstaðan sú að mér er það ómögulegt. Það er ekki vegna þess að ég sé leiður á lífinu, fjarri því. Og ég er einn þeirra heppnu. Ég er ekki meðal þeirra tugþúsunda sem misst hafa vinnuna hérlendis. Ég er ekki einn þeirra hundrað milljón jarðarbúa sem hvergi eiga heima. Ég get sinnt verkefnum mínum í fjarvinnu, og verkefnunum hefur bara fjölgað í þessu ástandi.

Vitanlega reyni ég að gæta mín eftir bestu getu. En ég get einfaldlega ekki krafist þess að unga kynslóðin og það fólk sem stendur höllustum fæti þurfi að glata lífsviðurværinu, voninni, og jafnvel lífinu, aðeins til að vernda mig. Ég get ekki einblínt á eigin hagsmuni þegar ég stend frammi fyrir þeim hörmungum sem þessi röklausi óttafaraldur er að valda heimsbyggðinni.

Þetta er ekki vegna þess að ég sé eitthvert sérstakt góðmenni eða eitthvað sérstaklega fórnfús. Ég er ekkert betri manneskja en hver annar. En fyrir mér er þetta viðhorf einfaldlega svo eðlilegt að ég hugsa ekki einu sinni út í það: Þegar maður stendur frammi fyrir ógn við mannkynið hlýtur maður að bregðast við á grundvelli hagsmuna mannkynsins alls. Hagsmuna hinna ungu. Hagsmuna framtíðarinnar. Annað er einfaldlega óhugsandi. Það er eina skýringin sem ég hef.

Er það rétt af mér að hafa þetta viðhorf? Ég veit það ekki. En þetta er eina viðhorfið sem mér er unnt að hafa.

Höfundur er hagfræðingur og BA í heimspeki.