Gidey og Cheptegei fagna eftir að hafa sett glæsileg heimsmet, hún í 5.000 og hann í 10.000 metra hlaupi.
Gidey og Cheptegei fagna eftir að hafa sett glæsileg heimsmet, hún í 5.000 og hann í 10.000 metra hlaupi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlauparinn Letesenbet Gidey frá Eþíópíu er meðal þeirra kvenna, sem tilnefndar voru til að hljóta viðurkenninguna íþróttamaður ársins í hópi kvenna. Gidey sló heimsmetið í 5.000 metra hlaupi með glæsilegum hætti á sögulegu móti í Valencia í október.

Hlauparinn Letesenbet Gidey frá Eþíópíu er meðal þeirra kvenna, sem tilnefndar voru til að hljóta viðurkenninguna íþróttamaður ársins í hópi kvenna. Gidey sló heimsmetið í 5.000 metra hlaupi með glæsilegum hætti á sögulegu móti í Valencia í október. Þar sló Joshua Cheptegei frá Úganda heimsmetið í 10.000 metrum og er hann tilnefndur til að hljóta viðurkenninguna í flokki karla.

Bæði heimsmetin voru glæsileg. Gidey, sem er 22 ára, bætti met landa síns Tirunesh Tibaba frá 2008 um heilar fjórar sekúndur og hljóp 5.000 metrana á 14:06.62 mínútum.

Cheptegei bætti met Kenenisa Bekele frá 2005 um sex sekúndur og hljóp á 26:11.00 mínútum.

Þessi árangur á mótinu var engin tilviljun. Hlaupararnir tóku nýja tækni í þjónustu sína og er talað um að búast megi við mörgum metum á næstunni líkt og þegar heilfatnaður var kynntur til sögunnar í sundi og met féllu hver um önnur þver þar til hann var bannaður.

Nýir skór og ljósasýning

Cheptegei og Gidey voru í gaddaskóm frá Nike sem nefnast ZoomX Dragonfly. Skórinn er laufléttur og er sagður veita þá tilfinningu að hann gefi kraft í hverju skrefi.

Sumir halda fram að skórnir séu tæknileg hliðstæða við lyfjanotkun til að bæta frammistöðu, en aðrir að um sé að ræða byltingarkenndar tækniframfarir. Gaddarnir undir skónum eru hins vegar samþykktir.

Auk þess að vera í þessum undraskóm var ljósatækni, sem nefnist Wavelight, notuð sem nokkurs konar taktmælir fyrir hlauparana. Gefa ljósin til kynna hversu hratt þarf að hlaupa til að ná tilteknum tíma, í þessu tilfelli til að slá heimsmet.

„Það er líklegt að þetta sé komið til frambúðar þegar á að slá met,“ sagði Geoff Burns, sem rannsakar aflfræði líkamans og frammistöðu íþróttamanna við Michigan-háskóla, við AFP eftir mótið í Valencia um Wavelength. „Líkt og með skóna er ég á báðum áttum, annars vegar er þetta meiri háttar fyrir stuðningsmenn þar sem kapphlaupið við klukkuna verður nánast áþreifanlegt og dregur áhorfandann inn í þá baráttu. Hins vegar léttir hún þann sálræna þrýsting á hlauparann að halda uppi hraðanum sem er ein af hinum stórfenglegu og fallegu áskorunum hlaupanna.“

Aðeins í kappi við tímann

Í Valencia voru engir áhorfendur og hlaupararnir í aðeins í kappi við tímann. Viðburð sem þennan má í raun rekja til þess að Ólympíuleikunum, sem halda átti í sumar, var frestað.

Cheptegei sagði í viðtali við letsrun.com að tæknilegar framfarir væru hluti af hlaupunum og það væri undir íþróttamönnum hvers tíma komið að færa sér þær í nyt. „Nú er árið 2020, við erum ekki á níunda eða tíunda eða áttunda áratugnum.“

Sebastian Coe, forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, sem á sínum tíma vann tvisvar gull á Ólympíuleikum í 1.500 metrum og setti 12 heimsmet á ferlinum kvaðst ekki gera athugasemdir við ljósatæknina. Menn hefðu áratugum saman notað sínar aðferðir til að halda uppi hraðanum, sagði hann, og tiltók sérstaklega að það hefði verið gert þegar Roger Bannister hljóp eina mílu fyrst undir fjórum mínútum árið 1954.

Tilkynnt verður um íþróttamenn ársins í frjálsum íþróttum 5. desember og verður Gidey að teljast sigurstrangleg, en Cheptegei á í harðri keppni við sænska stangarstökkvarann Armand Duplantis, sem sló heimsmet Úkraínumannsins Sergeys Bubka frá 1994 þegar hann stökk 6,15 metra.