Romy Schneider dó 43 ára.
Romy Schneider dó 43 ára. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hefur ekki alltaf verið tekið út með sældinni að vera heimsfræg kvikmyndaleikkona á ofanverðri síðustu öld; alltént féllu margar þeirra frá í blóma lífsins. Af ýmsum ástæðum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Það er alltaf gaman þegar efni í blaðinu kallast á en ykkur að segja þá er gamla fréttin á baksíðu þessa blaðs (sem margir lesendur eiga ennþá eftir að sjá ef þeir fletta blaðinu frá A til Ö) kveikjan að þessari grein. Þar er hermt af því helsta í bíóhúsum borgarinnar um þetta leyti árs 1960, sumsé fyrir sextíu árum. Aðalmyndin var þá þýska stórmyndin „Elskendur í París“ með Horst Buchholz og Romy Schneider. Ég verð að viðurkenna að ég kannast ekki við þá ágætu ræmu en eflaust hefur hún verið góð. Ég meina, hún gerist í París!

Buchholz er mér mjög kær enda er hann líka í einni af mínum uppáhaldsgamanmyndum, „Einn, tveir, þrír“ eftir Billy Wilder frá 1961. Þar leikur Buchholz hinn blóðheita kommúnista Otto Ludwig Piffl sem villist inn á skrifstofu umdæmisstjóra Coca Cola í Vestur-Berlín, sem enginn annar en James Cagney túlkar af sinni alkunnu snilld. Og fjandinn verður laus.

Romy Schneider hefur ekki haft eins djúpstæð áhrif á mitt líf en þegar ég sá nafnið minnti mig að ekki hefði farið vel fyrir henni; hún hefði fallið frá langt fyrir aldur fram. Hófst þá lesturinn og æ, æ, æ. En sá harmleikur.

Schneider fæddist árið 1938 og fór að leika í kvikmyndum í Þýskalandi strax á unglingsaldri. Næsta aldarfjórðunginn var hún ein skærasta kvikmyndastjarna Evrópu, jafnvíg á þýsku og frönsku, auk þess sem hún drap niður fæti í Hollywood um miðjan sjöunda áratuginn. Lék meðal annars í Hvað er títt Kisulóra? með Woody Allen, sem einnig skrifaði handritið, Peter Sellers og Peter O'Toole.

Schneider var einnig virk í baráttunni fyrir mannréttindum og ein kvennanna sem birtust á forsíðu þýska blaðsins Stern árið 1971 undir yfirskriftinni: „Við höfum látið rjúfa þungun.“ Það var harðbannað þá.

Sjálf eignaðist hún tvö börn, son og dóttur, en upphafið að endalokunum var þegar sonurinn, David Christopher, lést með voveiflegum hætti þegar hann var að reyna að klifra yfir gaddagirðingu. Slagæð í lærinu brast og drengnum, sem var aðeins fjórtán ára, blæddi út. Hermt er að Schneider hafi drukkið ótæpilega eftir slysið og tíu mánuðum síðar var hún öll, 43 ára. Banamein hennar var hjartaáfall. Haft er eftir fjölskylduvini að hún hafi ekki drukkið um þær mundir en orsök hjartaáfallsins hafi verið nýrnaaðgerð sem Schneider gekkst undir nokkrum mánuðum áður.

Hún lét eftir sig dótturina Söruh Magdalenu sem hún átti með seinni eiginmanni sínum og fyrrverandi einkaritara, Daniel Biasini. Sarah Magdalena fetaði í fótspor móður sinnar og vinnur við leiklist.

Ekki sú eina

Þessi örlög Romy Schneider leiða óhjákvæmilega hugann að fleiri ótímabærum andlátum frægra leikkvenna á ofanverðri seinustu öld.

Á dögunum sá ég mynd um líf bandarísku leikkonunnar Jean Seberg sem naut umtalsverðrar lýðhylli á sjöunda áratugnum, bæði í Frakklandi og Hollywood. Hún var líka róttæk og studdi baráttu mannréttindasamtaka og pólitískra hreyfinga á borð við Black Panther-flokkinn sem varð til þess að sjálfur J. Edgar Hoover, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), gægðist inn í líf hennar. FBI lagðist á Seberg af fullum þunga sem varð til þess að enginn í Hollywood þorði að ráða hana til starfa. Var þeim orðrómi meðal annars dreift árið 1970 að Seberg gengi ekki með barn bónda síns, Frakkans Romains Garys, heldur blökkumannaleiðtogans Raymonds Hewitts. Seberg ól barnið fyrir tímann en missti það tveimur dögum síðar. Hún fann sig knúna til að hafa kistuna opna við útförina svo allir gætu séð skjannahvítan hörundslit barnsins.

Seberg var mest í Frakklandi eftir þetta. Hún hvarf í lok ágúst 1979 og var gerð að henni leit, að beiðni þáverandi sambýlismanns hennar, sem fullyrti að hún væri í sjálfsvígshugleiðingum. Seberg fannst ekki fyrr en níu dögum síðar, vafin inn í teppi í aftursæti bifreiðar sinnar, nálægt heimili hennar í París. Hún var látin. Lögregla taldi yfirgnæfandi líkur á sjálfsvígi en Seberg skildi eftir miða handa ungum syni sínum: „Fyrirgefðu mér. Ég get ekki lengur lifað með þessum taugum.“ Hún var fertug. Romain Gary lýsti opinberlega ábyrgð á hendur FBI.

Dularfull andlát

Þau eru fleiri, kvenstirnin, sem fóru alltof snemma. Ekki þarf að fjölyrða um Marilyn Monroe, lesendur þessa blaðs þekkja sögu hennar eins og lófann á sér. Hún féll líka fyrir eigin hendi en ýmsar samsæriskenningar hafa þó verið uppi fram á þennan dag, svo sem um aðkomu valdamikilla manna í Washington. Aldrei hefur neitt slíkt verið sannað. Monroe var 36 ára er hún lést.

Enn ein goðsögnin, hin rússnesk/bandaríska Natalie Wood, drukknaði með dularfullum hætti árið 1981, aðeins 43 ára gömul. Hún hafði þá verið um borð í snekkju bónda síns, leikarans Roberts Wagners. Eftir því sem næst verður komist er lögreglurannsókn enn ekki lokið en árið 2018 fékk Wagner stöðu grunaðs manns. Ekkert hefur þó sannast og hann ætíð neitað allri sök.

Hin bandaríska Jayne Mansfield náði aldrei sömu hæðum og þær leikkonur sem nefndar eru hér að framan, var meira í bombudeildinni, en örlög hennar urðu einnig grimm; hún lést í bílslysi árið 1967, aðeins 33 ára að aldri. Þrjú af fimm börnum hennar voru í bílnum og lifðu slysið af, þeirra á meðal leikkonan Mariska Hargitay, sem við þekkjum úr Law and Order: Special Victims Unit.

Blessuð sé minning þeirra allra!