En stóra vandamálið er þó að hér er enginn dómari og vafaatriði þarf að leysa með rökræðum. Yfirleitt á háu nótunum.

Staðan er 10-10. Stóra klukkan í Framheimilinu sýnir að það eru þrjár mínútur eftir af tímanum. Ekki að það skipti svo miklu máli. Við spilum venjulega þangað til næsti hópur kemur inn á völlinn og heimtar sitt pláss. En það er enginn að spá í það á þessari stundu.

Þetta er vissulega bara bumbubolti en við vitum að þessi tími skiptir mjög miklu máli.

Þeir sem vinna fara inn í sumarið sem sigurvegarar og halda þeim titli fram á haust. Þetta er síðasti tími vetrarins og það er ólíkt betra að ljúka honum með sigri. Fyrir suma er það sáluhjálparatriði.

Þessir tímar eru merkileg samkoma. Tengingin er Morgunblaðið. Allir sem mæta hafa einhvern tímann unnið þar. Margir eru hættir, jafnvel fyrir mörgum árum, en halda samt áfram að mæta því það er mikilvægt að ná í lið og ekki er talað hlýlega um þá sem skila sér ekki. Mæting er skráð og eftir hvern tíma skrifar Orri leikskýrslu fyrir komandi kynslóðir. Þar eru allir með viðurnefni sem koma ekki alltaf mjög vel út fyrir viðkomandi.

Þarna safnast saman menn sem kunna mismikið í þessari fallegu íþrótt. Sumir hafa jafnvel spilað hana með ágætum árangri en eru orðnir lúnir og hafa kannski tekið nokkrar óheppilegar lífsstílsákvarðanir á leiðinni. Aðrir hafa aldrei náð svo mikið sem skilningi á því út á hvað fótbolti gengur. Og svo eru þeir sem hafa aldrei náð hugtakinu að gefa boltann. Þetta snýst ekki bara um félagsskapinn. Líka um að fá útrás fyrir gríðarlegt keppnisskap sem býr í flestum í þessum hópi.

Hér er áratuga saga með mörgum stoppistöðvum. Frá litla salnum í KR-heimilinu í óþarflega stóra salinn hjá Fram.

Það er reyndar alveg á mörkunum að það sé hægt að kalla þetta fótbolta. Það er til dæmis aldrei hitað upp og meiðslahættan er langt yfir lýðheilsumörkum. Ég man eftir að minnsta kosti þremur sjúkrabílum. Sjálfum tókst mér til dæmis að togna, rotast og nefbrotna í þessum tímum. En hér er ekkert elsku mamma. Þegar einn fótbrotnaði þurfti hann sjálfur að keyra á slysó af því að enginn tók hann alvarlega!

En hér eru reglur – alþjóðlegar reglur knattspyrnunnar sem hafa verið aðlagaðar að innréttingum í Framheimilinu. En stóra vandamálið er þó að hér er enginn dómari og vafaatriði þarf að leysa með rökræðum. Yfirleitt á háu nótunum. Hjálmar skilgreinir til dæmis hendurnar á sér öðruvísi en annað fólk, Stebbi virðist vera með einhvern augnsjúkdóm sem gerir það að verkum að hann greinir ekki línur og Árni er sannfærður um að hann hafi rétt á að ýta fólki frá sér ef það er fyrir. En einhvern veginn hefur þetta gengið árum saman og flestir skilið sáttir.

Svo gerist það. Í síðasta tíma vetrarins, þegar allt er undir. Röð mistaka (sem er reyndar ekki óvenjulegt í þessum hópi) verður til þess að boltinn skoppar út í teiginn og bæng og mark! Staðan er 11-10 en engar áhyggjur – það er nóg eftir til að jafna aftur. Jafnvel komast yfir. En ekki í dag. Siddi grípur boltann og tilkynnir að tíminn sé búinn!

Það verður allt brjálað! Hver öskrar í kapp við annan og liðið sem er undir heimtar boltann. Siddi hleypur með hann og nær að kasta honum upp á svalir en þangað kemst enginn nema húsvörðurinn. Ég hef sjaldan séð jafn miklar tilfinningar hjá fullorðnu fólki. Allt er á suðupunkti og Jón gerir sig líklegan til að reyna að klifra upp á svalirnar, sem er óðs manns æði. Dyrnar opnast – næsti tími er hafinn.

Siddi gengur út af fagnandi – ÞETTA ER BÚIÐ! VIÐ UNNUM!

Mér finnst þessi saga eiga ágætlega við. Svona eftir allt það sem hefur gengið á í vikunni.