Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Barnaverndarnefndum bárust 1.550 tilkynningar um vanrækslu barna þar sem foreldrar voru í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Þetta eru mun fleiri tilkynningar en í sömu mánuðum árin á undan.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Barnaverndarnefndum bárust 1.550 tilkynningar um vanrækslu barna þar sem foreldrar voru í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Þetta eru mun fleiri tilkynningar en í sömu mánuðum árin á undan.

Alls bárust barnaverndarnefndum 634 tilkynningar frá áramótum til loka septembermánaðar um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum eða þegar grunur vaknar um slíkt og eru það 31,8% fleiri tilkynningar en bárust fyrstu níu mánuði seinasta árs.

Þetta kemur fram í nýju yfirliti Barnaverndarstofu yfir sískráningu á tilkynningum sem nefndirnar hafa fengið. Eins og fram kom nýlega í Morgunblaðinu fjölgaði tilkynningum til barnaverndarnefnda í ágúst og september en Barnaverndarstofa hefur nú birt sundurliðað heildaryfirlit yfir fyrstu níu mánuði ársins. Þar kemur fram að á því tímabili bárust nefndunum samtals 9.570 tilkynningar og fjölgaði þeim um 14,3% frá sama tíma í fyrra. Alls vörðuðu þær 7.552 börn.

Skýrslutökum í Barnahúsi hefur fjölgað verulega

Einnig kemur í ljós að skýrslutökum í Barnahúsi hefur fjölgað. Rannsóknarviðtölum fyrstu níu mánuði ársins fjölgaði um tæp 40% frá sama tíma í fyrra og voru 228 í ár.

„Má skýra stóran hluta þessarar aukningar vegna aukins fjölda skýrslutaka en skýrslutökur fyrir dómi voru 149 á fyrstu níu mánuðum ársins 2020. Er það fjölgun frá árunum á undan þegar þær voru rétt um 90 hvort ár fyrir sig. Fjöldi barna sem fóru í greiningar- og meðferðarviðtöl í Barnahúsi á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 var 99 börn. Er það fjölgun frá árunum á undan,“ segir í umfjöllun Barnaverndarstofu.

2.175 tilkynningar bárust um vanrækslu drengja á fyrstu níu mánuðum ársins sem er umtalsverð fjölgun frá í fyrra þegar þær voru 1.733. Tilkynningum um vanrækslu stúlkna hefur einnig fjölgað frá í fyrra, voru þá 1.808 talsins en 1.975 á þessu ári.

Heldur fleiri tilkynningar bárust um ofbeldi gagnvart stúlkum en drengjum eða alls 1.389 vegna stúlkna og 1.356 vegna drengja.

Tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart drengjum voru 99 á fyrstu níu mánuðum ársins og fækkaði lítið eitt frá í fyrra en tilkynningar vegna kynferðislegs ofbeldis gagnvart stúlkum voru miklu fleiri eða alls 283 á þessu ári og fjölgaði verulega frá sama tímabili í fyrra og árinu þar á undan. Þær voru 220 í fyrra og 213 á sama tíma 2018.

Tilkynningum um áhættuhegðun barna fækkaði lítið eitt á þessu ári og voru alls 2.549.

Fram kemur að umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu hefur fjölgað á þessu ári og voru alls 117 talsins.

Nágrannar tilkynna oftar

Langflestar tilkynningar til barnaverndarnefnda koma frá lögreglu eða alls 3.717 á fyrstu níu mánuðum ársins en tilkynningum nágranna hefur fjölgað mikið á þessu ári. Nágrannar sendu barnaverndarnefndunum 802 tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins en þær voru 574 á sama tíma í fyrra.