[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Valur dróst í gær á móti Glasgow City FC í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu og mætast liðin á Hlíðarenda 18. eða 19. nóvember.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Valur dróst í gær á móti Glasgow City FC í 2. umferð Meistaradeildar Evrópu og mætast liðin á Hlíðarenda 18. eða 19. nóvember.

Þótt kvennalið Vals sé stórveldi í knattspyrnunni á Íslandi þá eru samt sem áður liðin ellefu ár frá því liðið lék síðast í Evrópukeppni. Er það athyglisverð staðreynd. Þá lék Valur einmitt á móti Glasgow City. Þær skosku höfðu betur 3:0 á Hlíðarenda en í Glasgow fór 1:1. Hallbera Guðný Gísladóttir, sem nú er fyrirliði Vals, tók þátt í leikjunum sem og Mist Edvardsdóttir. Elín Metta Jensen var einnig með, en kornung.

Glasgow City verður tæplega auðveldur andstæðingur fyrir Val. Raunar gæti maður ímyndað sér að liðið sé mjög svipað bestu liðunum á Íslandi. Ef horft er til árangurs liðsins í Meistaradeildinni þá hefur það fallið úr keppni í 16 liða eða 32 liða úrslitum á undanförnum árum. Þar hafa fulltrúar Íslands yfirleitt fallið úr keppni. Í liðinu eru tveir leikmenn sem léku hér á Íslandi á síðasta tímabili. Mairead Fulton lék með Keflavík í efstu deild og Lauren Wade skoraði 20 mörk fyrir Þrótt í næstefstu deild.

Glasgow City hefur verið besta liðið í Skotlandi og á þar mikilli velgengni að fagna. Valur mætir reyndu liði því margir leikmanna liðsins hafa leikið fjölda landsleikja. Liðin eiga það því sameiginlegt því mikil reynsla býr í leikmönnum eins og Dóru Maríu Lárusdóttur, Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur, Hallberu og Söndru Sigurðardóttur hjá Val á alþjóðlegum vettvangi.

„Þetta lið hefur mjög oft unnið skosku deildina og er með markatöluna 10:1 eftir fyrstu tvo leikina. Mér hefur oft fundist þær skosku spila fótbolta sem er áþekkur okkar leikstíl,“ sagði Dóra María meðal annars í gær en viðtalið við hana í heild sinni er að finna á mbl.is/sport.