Íslandsmótinu í fótbolta lauk óhátíðlega og hispurslaust á dögunum. Síðasti leikur tímabilsins var spilaður 6. október en örlög mótsins voru þó ekki endanlega ráðin fyrr en 30. október þegar KSÍ loks bugaðist vegna aðstæðna í samfélaginu.
Íslandsmótinu í fótbolta lauk óhátíðlega og hispurslaust á dögunum. Síðasti leikur tímabilsins var spilaður 6. október en örlög mótsins voru þó ekki endanlega ráðin fyrr en 30. október þegar KSÍ loks bugaðist vegna aðstæðna í samfélaginu.

Skiptar skoðanir eru á þessum endalokum eins og við var að búast. Margir voru fegnir, enda tímabilið orðið langt og staðan innanborðs hjá mörgum félögum orðin erfið. Aðrir voru auðvitað síður kátir, enda áttu ýmis lið að miklu að keppa á endasprettinum. Eitt þeirra er félagar mínir í Safamýrinni.

Framarar misstu af úrvalsdeildarsæti á markatölu þegar tvær umferðir voru enn óleiknar í fyrstu deildinni. Sú niðurstaða var Safamýrarpiltum eðlilega þungbær og í gær bárust þær fregnir að félagið hefði kært ákvörðun KSÍ til áfrýjunardómstóls sambandsins. Slást þeir þar í hóp með KR-ingum sem sömuleiðis hafa sent inn kæru vegna endaloka tímabilsins.

Mér þykir í sjálfu sér eðlilegt og sjálfsagt að forráðamenn félagsins láti á þetta reyna. Það er eitt og annað óljóst varðandi reglugerðina sem KSÍ setti sér vegna kórónuveirunnar og ágætt að þar til bærir aðilar úrskurði um réttmæti hennar.

Von mín er þó ekki síður sú að við Framarar, og allir þeir sem eftir sitja með sárt ennið, látum þetta mótlæti ekki slá okkur út af laginu. Við megum ekki leggjast í sjálfsvorkunn og gleyma því frábæra tímabili sem kom okkur einmitt í þá stöðu að vera markatölu frá draumalandinu þegar aðeins tveir leikir voru eftir. Auðvitað eru allir fótboltaáhugamenn svekktir með svona endalok, en aftur kemur dýrlegt sumar með sól og blóm og fótbolta.