[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óttarr Arnar Halldórsson fæddist á Akureyri 7.11. 1940 en fluttist með móður sinni til Reykjavíkur tveggja ára að aldri. Þar bjuggu þau í vesturbæ Reykjavíkur og gekk Óttarr í Melaskóla og Gaggó Vest.

Óttarr Arnar Halldórsson fæddist á Akureyri 7.11. 1940 en fluttist með móður sinni til Reykjavíkur tveggja ára að aldri. Þar bjuggu þau í vesturbæ Reykjavíkur og gekk Óttarr í Melaskóla og Gaggó Vest. Þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands þar sem Óttarr útskrifaðist með verslunarpróf 1958. Óttarr fór svo í nám í The London School of Foreign Trade í London þar sem hann lærði rekstur og tryggingar skipa, vörutryggingar o.fl. og útskrifaðist með diplómu í „shipping“ árið 1960. „Þetta var skemmtilegur tími og þar sem við kunnum lítið að elda keyptum við „Irish stew“ í dósum og það var hitað upp í öll mál.“

Eftir heimkomu frá London hóf hann störf hjá Almennum tryggingum og fór svo að vinna hjá föður sínum í heildverslun hans, Halldóri Jónssyni ehf. Þar sem Óttarr var dúx í þýsku úr Verslunarskólanum var ákveðið að senda hann til Þýskalands í eitt ár til að afla umboða fyrir heildsöluna. Hann kom svo heim með umboð fyrir nokkur góð vörumerki, m.a. Wella-hárvörumerkið, sem síðar varð hryggjarstykkið í rekstrinum.

Þá kom þýskan sér vel

Á heimleiðinni með Gullfossi kynntist Óttarr eiginkonu sinni, Ingrid. Ekki voru margir þýskumælandi um borð og því leituðu Ingrid og vinkona hennar til Óttars með ýmislegt. Þannig voru fyrstu kynni hjónanna. Eftir komuna til Íslands hittust þau oft fyrir tilviljun hér og þar, t.d. í Vesturbæjarlauginni, í Klúbbnum, á Akureyri og víðar.

Svo virðist sem örlagadísirnar hafi ætlað þeim að ná saman og giftu þau sig árið 1964 í heimabæ Ingridar í Suður-Þýskalandi.

Fjölskyldufyrirtækið Ísflex ehf.

Árið 1976 stofnaði Óttarr sína eigin heildverslun, Ísflex ehf., með Ingrid. Þau byrjuðu smátt og var hinn vinsæli Milupa-barnamatur ein af fyrstu innflutningsvörunum. Lagerinn var í bílskúrnum heima og Óttarr sá sjálfur um allan rekstur og keyrði m.a. sjálfur út vörurnar í búðirnar. Eftir að þau fengu umboð fyrir Margaret Astor-snyrtivörurnar varð mikil uppsveifla, en Astor var mest selda merkið hérlendis í fjölda ára. Vegna þessarar velgengni löðuðust fleiri toppmerki að fyrirtækinu, t.d. Jil Sander, Lancaster, Adidas o.fl., að ógleymdu hinu virta La Prairie. Báðar dætur Óttars störfuðu með honum í fyrirtækinu um árabil og var þetta því sannkallað fjölskyldufyrirtæki.

Sterkasti strákurinn í bekknum

„Strax í Melaskólanum þótti ég efnilegur í íþróttum, enda alltaf sterkasti strákurinn í bekknum. Ég hafði lengi dáðst að júdóíþróttinni og skráði mig í byrjendaflokk hjá Júdódeild Ármanns haustið 1968. Ég stundaði æfingar og félagsstörf af kappi og var fljótlega beðinn að taka að mér fjármál deildarinnar og var gjaldkeri hennar í fjölda ára.

Á þessum árum vorum við alltaf með hámenntaða japanska þjálfara og féll það aðallega í minn hlut að hafa samskipti við þá, greiða þeim laun og reka íbúð fyrir þá. Júdódeildin var á þessum árum með „frúarleikfimi“ til að fullnýta salina yfir daginn. Júdóæfingar byrjuðu ekki fyrr en um kvöldmatarleytið og hafði deildin þess vegna fjárráð til að borga húsaleigu, starfsfólki og góðum þjálfara.“ Óttarr varð síðar fulltrúi deildarinnar í stjórn Júdósambands Íslands og kosinn gjaldkeri frá upphafi og sá mikið um samskiptin við japanska þjálfara vegna fyrri reynslu.

Óttarr og Ingrid hafa alla tíð verið mikið skíðafólk og fóru þau í margar skíðaferðir með dætrum sínum til Austurríkis. Í 15 ár fóru þau í árlegar skíðaferðir til Aspen í Colorado með sama góða vinahópnum. Einnig eiga þau íbúð við ströndina í Sarasota í Flórída og dvelja þar alltaf vor og haust í nokkrar vikur í senn. Þau hjónin hafa alla tíð verið mjög samstiga í að hreyfa sig og má þar nefna sund, gönguferðir, skíði og hjólreiðaferðir.

Óttarr gekk í Frímúrararegluna snemma, árið 1974, og er í stúkunni Eddu.

Fjölskylda

Eiginkona Óttars er Ingrid Elsa Halldórsson, f. 6.6. 1943, meðeigandi í fjölskyldufyrirtæki þeirra Ísflex ehf. og lærður snyrtifræðingur. Hún stundar jóga af kappi og hefur æft með sama jógahópnum í fjölda ára.

Foreldrar hennar voru Karl Springer, f. 6.11. 1904, d. 7.3. 1979, og Else Springer, f. 28.2. 1909, 17.3. 2001. Þau bjuggu í Suður-Þýskalandi þar sem Ingrid ólst upp.

Börn Óttars og Ingridar eru:

1) Esther Angelica, f. 25.10. 1965, fv. flugfreyja hjá Icelandair, gift Ólafi Bergmann Svavarssyni, véla- og iðnrekstrarfræðingi. Sonur þeirra er Óttarr Bergmann, f. 2.5. 2004. Dóttir Estherar af fyrra hjónabandi er Alexandra Ingrid Hafliðadóttir, f. 1.6. 1993, atvinnuflugmaður, í sambúð með Leifi Arasyni og eiga þau soninn Arnald Ara. Dóttir Ólafs af fyrra hjónabandi er Lúcía Sigrún fatahönnuður, f. 21.5. 1986, í sambúð með Bram Van der Stocken og eiga þau börnin Óliver Aldar, Hörpu Nótt og Sögu Lóu. 2) Íris Kristína, f. 4.7. 1971, aðstoðarmaður þingflokks Miðflokksins á Alþingi. Synir hennar úr fyrra hjónabandi eru Þorsteinn Arnar Þorsteinsson, f. 11.8. 2005, og Matthías Dagur Þorsteinsson, f. 11.5. 2008.

Foreldar Óttars voru Ísafold Teitsdóttir hjúkrunarkona, f. 17.1. 1907, d. 29.12. 1996, og Halldór Jónsson stórkaupmaður, f. 16.1. 1916, d. 23.2. 1977.