Fréttnæmast við úrslit kosninganna í Bandaríkjunum er ef til vill, hversu langt þau voru frá spádómum allra spekinganna, sem birst hafa á skjám um allan heim og endurtekið tuggur hver frá öðrum.

Fréttnæmast við úrslit kosninganna í Bandaríkjunum er ef til vill, hversu langt þau voru frá spádómum allra spekinganna, sem birst hafa á skjám um allan heim og endurtekið tuggur hver frá öðrum. Þegar þetta er skrifað virðast lýðveldissinnar (repúblikanar) hafa haldið velli í öldungadeildinni og unnið nokkur sæti í fulltrúadeildinni, og forsetaefni þeirra bíður nauman ósigur fyrir forsetaefni lýðræðissinna (demókrata). Minnihlutahópar hafa kosið lýðveldissinna í meira mæli en oftast áður. Innan Lýðræðisflokksins heyrast nú raddir um, að fámennur hópur háværra vinstrimanna megi ekki ráða þar ferð, en sá hópur vill fella niður fjárveitingar til lögreglunnar og stórhækka skatta á hátekjumenn. Slíkir skattar lenda alltaf að lokum á miðstéttinni, því að hátekjumennirnir, sem eru einmitt einhverjir öflugustu stuðningsmenn Lýðræðisflokksins, kunna ótal ráð til að koma sér undan þeim. (Tveir ríkustu menn heims, Jeff Bezos og Carlos Slim, eiga mikið eða allt í Washington Post og New York Times, sem bæði styðja Lýræðisflokkinn, og Twitter og Facebook veittu Lýðræðisflokknum grímulausan stuðning.)

Annað er líka umhugsunarefni; fávíslegar athugasemdir spekinganna á skjánum um bandarísk stjórnmál. Þeir virðast ekki vita, að Bandaríkin eru samband fimmtíu ríkja, og hvert ríki hefur sinn hátt á að kjósa til forseta og í öldungadeild og fulltrúadeild. Ríkin kjósa forsetann, en ekki sá merkingarlausi hópur, sem fæst með því að leggja saman fjölda fólks með kosningarrétt í ríkjunum fimmtíu. Þess vegna var auðvitað líka viðbúið, að tafir yrðu sums staðar á talningu. Aðferðirnar eru ólíkar. Bandaríkin eru dreifstýrt land, ekki miðstýrt. Fullveldinu er þar skipt milli ríkjanna fimmtíu og alríkisins. Eins og Alexis de Tocqueville benti á í sínu sígilda verki um Bandaríkin er dreifstýringin skýringin á því, hversu vel heppnað hið bandaríska stjórnskipulag er, ólíkt hinu franska, sem lauk í byltingunni með ógnarstjórn og hernaðareinræði. Tocqueville nefndi ekki aðeins skiptingu valdsins milli einstakra ríkja og alríkisins, heldur líka sjálfstæði dómstóla og frumkvæði borgaranna í framfaramálum. Bandarískt stjórnskipulag er til þess gert að standast misjafna valdsmenn eins og skip eru smíðuð fyrir storminn, ekki lognið. Sé allt það rétt, sem andstæðingar núverandi forseta segja um hann, þá er það enn ein staðfestingin á greiningu Tocquevilles, að Bandaríkin skuli hafa komist bærilega af undir fjögurra ára stjórn hans.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is