„Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum,“ segir Yrsa sem kölluð hefur verið glæpadrottning Íslands.
„Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum,“ segir Yrsa sem kölluð hefur verið glæpadrottning Íslands. — Morgunblaðið/Ásdís
Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir hefur ekki setið auðum höndum en nýjasta glæpasaga hennar, Bráðin, kemur út síðar í vikunni.

Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir hefur ekki setið auðum höndum en nýjasta glæpasaga hennar, Bráðin, kemur út síðar í vikunni. Yrsa hefur skrifað glæpasögur sextán ár í röð en bætir nú um betur og gefur einnig út barnabók um köttinn Bóbó og músina Amelíu. Yrsa segist alltaf hafa haft áhuga á óhugnaði og skrifar oft undir óminum frá hryllingsmyndum. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Hún er kölluð glæpadrottningin en það er ekkert myrkt við Yrsu Sigurðardóttur þar sem hún opnar dyrnar brosandi og býður í bæinn á fallegu heimili sínu á Seltjarnarnesi. Hún skenkir kaffi í bolla og á borðinu liggur glænýtt eintak af bókinni hennar Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin. Blaðamaður hafði gluggað í þá bók og leist vel á, en aðalpersónan er köttur. Það er ekki að spyrja að því þegar tvær kattarkonur koma saman; fyrsta korterið fer í að ræða ketti og þeirra margbrotnu persónuleika.

Við snúum okkur svo að bókum Yrsu, en þær eru ófáar á löngum og farsælum ferli.

Sautján ár eru liðin frá því að Yrsa skrifaði síðast barnabók og sneri sér að glæpasögum. Bráðin er sextánda bókin í röð ætluð fullorðnum. Nú hefur hún bætt um betur og skrifað ekki eina, heldur tvær bækur; eina fyrir börn og aðra mun óhugnanlegri fyrir fullorðna. Yrsa viðurkennir að hún hafi verið á haus undanfarna mánuði að klára þessar tvær skáldsögur. Það er ekki að sjá á henni; hún er yfirveguð og slök.

Ósköp einmanalegt

Ferill Yrsu hófst á barnabókum árið 1998 og gaf hún þá út fimm í röð áður en hún sneri sér að glæpunum árið 2005 með Þriðja tákninu. Yrsa vinnur einnig hjá Verkís en hún er verkfræðingur að mennt.

„Ég er ekki í fullu starfi þar lengur og það er misjafnt eftir árstímum hvað ég vinn mikið,“ segir Yrsa og segist alls ekki vilja sleppa þeirri vinnu. Enda finnst henni gaman að vinna innan um fólk; ekki bara ein með ímyndunaraflið.

„Það er skemmtileg vinna og ég hitti margt fólk. Við vinnum oft mörg saman í tengslum við verkefnavinnu. Það að skrifa er ósköp einmanalegt. Ég þarf á mannlegum samskiptum að halda og ég fæ þau meðal annars í gegnum vinnuna.“

Hvað varð til þess í upphafi að verkfræðingurinn settist niður við skriftir?

„Ég sem barn var alltaf lesandi. Ég kaus það fram yfir allt. Þegar sonur minn var tíu ára fannst mér hann ekki lesa nóg og fannst vanta bækur fyrir þann aldur,“ segir hún og settist því niður og skrifaði Þar lágu Danir í því.

Hún telur afar mikilvægt fyrir alla, ekki síst börn, að lesa.

„Þegar maður les bækur er maður að setja sig í spor annarra og fær tækifæri til þess að setja sig í aðstæður sem maður myndi sjálfur aldrei lenda í. Og sú persóna sem þú lest um er inni í höfðinu á þér og þú færð að lesa hugsanir hennar en á meðan maður horfir á sjónvarpsefni eða bíómynd er maður áhorfandi og upplifunin önnur. Það er hægt að lifa sig meira inn í bók og skilja betur sögupersónur. Mín kenning er sú að börn sem lesa mikið verði skilningsríkari manneskjur. Því hafði ég áhyggjur af syni mínum og ákvað að skrifa barnabók. Ég hugsaði að þetta gæti ekki verið erfitt, og það reyndist ekki vera. Ég hef alltaf verið með ríkt ímyndunarafl. Þannig byrjaði þetta allt saman.“

Ástardrama og hryllingsmyndir

Yrsa segir að skapandi skrif hafi ekkert endilega verið í forgangi á hennar yngri árum, en þó hafi hún og vinkona hennar skrifað bók í menntaskóla.

„Okkur leiddist í tíma og við skrifuðum saman rosalegt ástardrama. Það væri ekki birtingarhæft,“ segir Yrsa og hlær.

„Ég fann hana um daginn og hún er mjög fyndin,“ segir hún og brosir.

„En ég var aðallega bara að lesa sjálf sem barn og unglingur. Sem barn las ég mikið um börn sem leystu glæpi og svo var alltaf eitthvað sem heillaði við hið óhugnanlega. Draugasögur og ráðgátur voru í uppáhaldi en ég las allt; líka bækur frá pabba og mömmu. Svo fór ég að lesa Agöthu Christie og dáðist mikið að henni og svo var það Stephen King,“ segir hún.

Yrsa viðurkennir að hún hafi einnig verið með nefið ofan í læknisfræðibókum föður síns, aðallega til að skoða ógeðfelldar myndir af fólki sem þjáðist af ýmsum smitsjúkdómum.

„Mér hefur alltaf þótt óhugnaður áhugaverður. Það kom ekkert slæmt fyrir mig í æsku en þessi læknabók um smitsjúkdóma er klárlega rótin að þessu,“ segir hún og hlær.

„Ég man líka að hryllingsmyndir heilluðu. Þegar ég var lítil bjuggum við í Ameríku og ég man að eitt sinn voru frænkur mínar í heimsókn. Fullorðna fólkið fór út að borða og það átti að sýna í sjónvarpinu The Birds en það vildi ekkert hinna barnanna horfa með mér. Ég hefði auðvitað ekkert fengið að horfa ef foreldrarnir hefðu verið heima því ég var bara tíu ára, en ég endaði á að horfa á hana ein og fannst hún æðisleg.“

Ekki gera þig að fífli

Alveg síðan 2005 hefur Yrsa verið iðin við glæpasöguskriftirnar. Bækur hennar hafa verið þýddar á fleiri tungumál en hún getur talið.

„Þegar ég skrifaði síðustu barnabókina árið 2003 fannst mér þetta bara orðið gott og ætlaði ekkert að skrifa aftur,“ segir Yrsa.

Hvað var þá kveikjan að glæpaskrifunum?

„Áður en Arnaldur sló í gegn held ég að hvorki útgefendur né lesendur hafi þá verið búnir að átta sig á að það væri hægt að skrifa góða glæpasögu sem gerist á Íslandi. En honum tókst að sýna fram á það svo um munaði og gott betur en það. Þá opnaðist þessi möguleiki að skrifa glæpasögu. Ég hafði eitt sinn byrjað á glæpasögu en vinkona mín sem var í útgáfubransanum sagði þá við mig; „Ekki gera þig að fífli að reyna að skrifa íslenska glæpasögu, þú getur gleymt því.“ Við höfum oft hlegið að þessu síðan,“ segir hún og brosir.

„Á þessum tíma voru þetta gild heilræði, en þetta breyttist sem betur fer. En það er nú þannig að glæpir í glæpasögum þurfa ekkert endilega að endurspegla algengustu glæpi hvers samfélags. Til að skrifa áhugaverða glæpasögu verður glæpamaðurinn að reyna að fela slóð sína; það þarf að vera meira en bara Jói drepur Kalla. Það þarf að setja upp trúverðugar aðstæður til þess að lesandinn trúi að mögulega gæti þetta gerst.“

Að halda utan um plott

„Mér fannst svo gaman að breyta til og skrifa glæpasögur, en í barnabókunum er meiri húmor,“ segir Yrsa og segist hafa skrifað í raun tvær seríur; sex bækur um lögreglukonuna Þóru og sex um Freyju og Huldar, og inn á milli eru þrjár stakar. Nú hefur Yrsa aftur skrifað bók þar sem alveg nýjar persónur stíga fram á sjónarsviðið.

„Bráðin er líka svona stök bók og fjallar um fólk sem fer inn í Lónsöræfi um miðjan vetur og finnst látið. Svo gerist hluti bókar á ratsjárstöðinni á Stokksnesi og einnig á Höfn í Hornafirði,“ segir Yrsa.

„Ég er svona tíu mánuði að skrifa bók, allt frá því ég fæ hugmynd. Skrifin gerast mjög misþétt en ég þarf að fara á alla staðina og skoða aðstæður. Maðurinn minn kemur alltaf með mér. Ég ætlaði upphaflega að fara austur um páskana, en þá komu tilmæli um að ferðast innanhúss. Ég vildi ekki brjóta þá reglu þannig að ég endaði á að komast ekki á staðina fyrr en í júní,“ segir hún og viðurkennir að hún hafi setið stíft við síðustu tvo mánuði.

„Ég notfæri mér excel til að halda utan um kaflana og skrifa mikið minnispunkta. Verkfræðinámið hjálpar örugglega. Að halda utan um plott fyrir einn glæp er auðvelt miðað við að halda utan um stærri verk sem verkfræðingur. Þar þarf maður að vera með marga bolta í lofti í einu. Eitt stykki glæpur er ekki neitt.“

Séð með augum kattarins

En hvað kom til að þú ákvaðst að skrifa aftur barnabók eftir svona langt hlé, og leggja það á þig þá að skrifa tvær bækur á einu ári?

„Þetta er búið að standa til í tíu ár, að skrifa tvær bækur á einu ári. Það kom þannig til að einhver karlugla sagði mér eitt sinn að ég ætti ekki að skrifa eina bók á ári, heldur ætti ég að taka tvö ár í eina bók eins og margir aðrir rithöfundar. Hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar ég ákvað að ég ætlaði að gefa út tvær bækur á einu ári. En það tók mig tíu ár að koma mér í það. En ég ætla að gera það sama á næsta ári því mér fannst virkilega gaman að skrifa barnabók aftur,“ segir Yrsa.

„Sérstaklega þótti mér gaman að fá tækifæri til að vinna bókina með dóttur minni Kristínu Sól en hún teiknaði myndirnar, sem ég gæti ekki verið ánægðari með. Hún er hátækniverkfræðingur í framhaldsnámi í róbótum og gervigreind en býr yfir þessum leynda hæfileika sem ég nýtti mér. Það samstarf var yndislegt,“ segir hún.

„Þessi bók er skrifuð þannig að foreldrum sem lesa hana fyrir börnin sín mun ekki leiðast frekar en börnunum. Það er húmor í henni sem ég vona að fullorðnir kunni líka að meta,“ segir Yrsa og segir bókina vera um kött sem eignast mús að vini.

„Sagan er um kött sem telur sig vera rosalegan fínan. Svo flytur flott læða, angóruköttur, í næsta hús og hann verður skotinn í henni en henni finnst hann frekar púkó. Þannig að hann reynir að verða sér úti um ættbók og lendir í ýmsu. Þetta er líka stúdía á mannfólkinu séð með augum kattarins,“ segir hún og segist hafa notað sína eigin reynslu af köttum við skriftirnar.

„Bókin er líka um vináttu og hvað skiptir máli í þessu lífi.“

Yrsa segist hafa skrifað báðar bækurnar samtímis.

„Það var frábært. Það ruglaði mig ekki neitt. Eina sem speglast þarna á milli er að það er líka köttur í Bráðinni, þó ekkert líkur Herra Bóbó,“ segir Yrsa og brosir.

Á mikið safn af hryllingsmyndum

Blaðamanni verður á orði að það hljóti að vera fleiri tímar í sólarhringnum hjá Yrsu en öðrum.

„Þetta var erfiðara þegar börnin voru lítil. Nú er þetta bara spurning um að nýta frítímann í að skrifa, frekar en til dæmis að horfa á sjónvarpið; þá er þetta ekkert flókið. Ég get skrifað nánast hvar sem er. Það er ekkert sem truflar mig, jafnvel ekki þótt einhver á heimilinu sé að horfa á eitthvað í sjónvarpinu eða stilli útvarpið hátt,“ segir Yrsa og segist jafnvel nota bíómyndir sem stemningu við skriftirnar.

„Ég á mikið safn af hryllingsmyndum og set þær gjarnan á þegar ég skrifa. Sixth sense er í uppáhaldi þegar kemur að sögufléttunni og svo held ég upp á margar fleiri sem eru mun óhugnanlegri. Ég nota þær til að skapa andrúmsloft. Ég er ekkert að horfa, heldur hlusta á tónlistina og hljóðin. Af og til kemur öskur. Það hentar mjög vel til að búa til stemningu.“

Hvernig koma hugmyndir til þín?

„Það er bara misjafnt. Það var til dæmis vinnufélagi sem benti mér á að Stokksnes væri fullkominn staður fyrir einhvern hrylling. Svo sækir Bráðin einnig innblástur til óleystrar ráðgátu frá gömlu Sovétríkjunum sem kallast Dyatlov Pass Incident. Sá atburður varð átta jarðfræðinemum og kennara þeirra að bana en þau yfirgáfu tjöld sín nánast klæðalaus um miðja nótt að vetri til í Úralfjöllunum, án þess að það hafi nokkru sinni fundist skýring á því hvað þeim gekk til. Það er oft eitthvert lítið fræ sem setur hugmynd af stað; það getur verið staður, frétt eða einhver karakter. Svo þarf að byggja ofan á fræ þar til maður er kominn með kjöt á beinin.“

Skrifa fyrir Ísland

Yrsa segist fyrst og fremst vera að skrifa fyrir Íslendinga og viðurkennir að gagnrýni geti tekið á taugarnar.

„Auðvitað er frábært að fá góða gagnrýni og það er aldrei skemmtilegt að fá slæma gagnrýni. Síðasta sem maður vill er að lesandinn verði fyrir vonbrigðum,“ segir hún.

Við ræðum frægðina sem fylgir því að vera metsöluhöfundur.

„Mér finnst ég ekkert vera merkilegri við það að teljast fræg hér á landi. Frægð er ekki annað en það að fólk sem þú þekkir ekki kannast við þig í sjón. Ég er bara ég, og frægð breytir engu varðandi mína persónu. Frægur rithöfundur í útlöndum þarf svo að vera massafrægur til að þekkjast úti á götu. Og þótt ég sé kannski þekkt einhvers staðar utan Íslands er það ekki hluti af lífi mínu og ég hugsa aldrei um það. Velgengni er aldrei komin til að vera. Er á meðan er. Þegar hún dvín má maður ekki fara á límingunum. Ég er afskaplega „chilluð“ með þetta. Þegar ég skrifa, skrifa ég fyrir Ísland og það er eina vitið. Ég er að skrifa fyrir upphaflegu lesendurna, sem eru íslenskir,“ segir Yrsa.

„Það kostar smá viðbótarvinnu þegar kemur að þýðingum en það koma fyrir atriði í bókunum sem ég er látin útskýra betur fyrir þeim sem ekki eru kunnugir á Íslandi.“

Nú ertu oft titluð hér glæpadrottningin. Hvernig finnst þér það?

„Já, einmitt,“ segir hún og hlær.

„Það fer ekkert í taugarnar á mér þannig. Þetta er aðallega svolítið sveitó.“

Glæpur á góðum stað

Norræna glæpasagan, er hún að slá í gegn?

„Já, hún er orðin fastur liður og komin til að vera. Ekki bara tískubóla. Stieg Larsson var sá sem stimplaði norrænu glæpasöguna endanlega inn, þótt aðrir hefðu komið á undan. Og svo kom Arnaldur. Hann hefur slegið í gegn á heimsvísu og erlend velgengni Ragnars undanfarið er alveg mögnuð. Það er svo gaman að sjá þegar vel gengur hjá þeim sem eiga það skilið.“

Hún er hógvær og gleymir sjálfri sér, en eins og alþjóð veit hefur hún einnig slegið í gegn á erlendri grundu.

„Við íslensku glæpahöfundarnir erum öll að skrifa með okkar eigin rödd. Það myndi enginn ruglast á bók eftir okkur; við erum öll með okkar sérstaka stíl og það er enginn að herma eftir öðrum. En við eigum það sameiginlegt, og það gildir um glæpasagnahöfunda frá hinum Norðurlandaþjóðunum líka, að við erum að skrifa frá löndum sem eru þekkt fyrir gott og sterkt félagslegt kerfi. Þar sem hlutir eiga að vera í eins góðu lagi og þekkist, varðandi mannréttindi og kvenréttindi til dæmis. Þá er voða gaman fyrir þá sem búa ekki þar að lesa um eitthvað hræðilegt sem gerist á góðum stað. Það er allt annað en að lesa til að mynda um eitthvað hræðilegt sem gerist í stríðshrjáðu landi, þar sem eru svo miklar hörmungar. Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum. Svo er umhverfið í norrænu glæpasögunum oft hrjóstrugt og kalt. Norræna glæpasagan tekur oft á þjóðfélagsmeinum og karakterarnir eru trúverðugir. Þetta eru oftast eðlilegar sögupersónur og mun eðlilegri en oft í bandarískum glæpasögum, þótt ég vilji ekki alhæfa og þetta á alls ekki við um allar glæpasögur frá Bandaríkjunum.“

Bækur öðlast framhaldslif

Þegar hefur ein bók Yrsu, Ég man þig, ratað á hvíta tjaldið og var það Sigurjón Sighvatsson sem var framleiðandi.

„Hann er með Kulda á borðinu hjá sér. Svo er hann líka með Þóru-seríuna hjá sér. En ég bara skrifa bækurnar, og ef þær fá framhaldslíf einhvers staðar er það frábært. Ég er ekki mikið að hugsa um það. Ef það gerist, þá gerist það. Ég er voðalega óstressuð með allt,“ segir Yrsa og segist vera afslöppuð að eðlisfari.

Eftir nýjustu törn er brátt kominn tími til að slaka aðeins á, enda er hún búin að skila af sér „börnunum“. Þó ekki alveg strax.

„Ég er enn að þýða Bóbó yfir á ensku og er að verða búin. Ég er svo að fara til Svíþjóðar að hitta umboðsmennina mína en þeir vildu fá barnabókina á ensku sem fyrst. Ég ákvað því að þýða hana bara sjálf; annars hefði þetta tekið svo langan tíma.“

Yrsa ferðast mjög mikið vegna bókanna, sem eru lesnar víða um heim.

„Fyrir Covid fór ég utan að jafnaði tvisvar í mánuði og stundum um hverja helgi. Ég fer á glæpasagnamessur og -hátíðir. Og svo vilja forlögin oft að ég sé viðstödd þegar bók eftir mig kemur út. Og ég fer víða í blaðaviðtöl,“ segir Yrsa og segist aðspurð ekki klippa út og geyma greinar og viðtöl við sig úr erlendum blöðum.

„Nei, það er nóg að reyna að halda utan um þessi erlendu eintök. Ég er löngu búin að biðja alla að senda mér ekki heilan kassa af bókum,“ segir hún og sýnir mér nýtt eintak af einni af bókum hennar á kóresku. Við rýnum í forsíðuna.

„Ég veit ekkert hvað þetta þýðir, 392 og upphrópunarmerki?“ segir hún og hlær.

„Vonandi ekki fjöldi seldra eintaka.“

Ómannglögg og missir af vélum

Eiginmaður Yrsu, Ólafur Þór Þórhallsson, fer með henni í flestar utanlandsferðir.

„Hann heldur utan um margt; ég er til dæmis svo ómannglögg, sem er svo óþægilegt. Hann þekkir alla og man allt svoleiðis betur,“ segir hún.

„Ég get til að mynda ekki verið með útgáfufagnað hérlendis vegna þessa galla. Ég hugsa til þess með hryllingi að vera beðin að árita bók fyrir einhvern sem ég þekki en man ekki hvað heitir,“ segir hún.

„Eitt sinn var ég í Dúbaí og átti að fara á svið með manni að nafni Joe Hill. Við erum að spjalla á undan og mér fannst ég kannast svo við hann. Ég spyr hvort við þekkjumst en hann taldi það ekki vera. Svo spyr ég hvaðan hann sé og hann svarar Maine. Ég hugsa að ég hljóti bara að hafa lesið bók eftir hann. Svo þegar hann fer á svið fara allir að spyrja um pabba hans, og þá kveiki ég. Þetta var sonur Stephens Kings og hann er eins og snýttur út úr nösunum á honum!“ segir hún og hlær.

Yrsa gúglar manninn og sýnir blaðamanni og það er ekki ofsögum sagt; Joe er alveg eins og pabbi hans í útliti.

„Hann er alveg nákvæmlega eins og hann og ég kveikti ekki, en hann skrifar líka hryllingssögur eins og pabbi hans. Hann hefur kannski haldið að ég væri að þykjast ekki vita hver hann væri. Í það minnsta virtust allir aðrir en ég vita það.“

Blaðamaður hafði heyrt að Yrsa væri gjörn á að missa af flugvélum og spyr þá hvort Óli hjálpi henni að mæta á réttum tíma á flugvelli.

„Já, einmitt,“ segir hún og hlær.

„Ég er að verða betri með þetta, en hef misst af ótal flugvélum, því miður, og þá aðallega hjá erlendum flugfélögum. Ég ruglast oft á pm og am í Ameríku. Eða ég lít vitlaust á miðann og ruglast á brottfarartíma og lendingartíma og mæti þá mörgum tímum of seint á völlinn. Ef ég þyrfti að velja mér ofurhetjuheiti þá væri ég „last remaining passenger“.“

Pásan var hálftími

Við förum að slá botninn í samtalið en ræðum aðeins þessa undarlegu kórónuveirutíma. Yrsa segist ekki hafa skrifað veiruna inn í Bráðina.

„Hún er ekki í bókinni, en ég fékk hugmynd að einni persónunni vegna Covid. Bráðin á að gerast í janúar 2021. Ég er að skrifa fram í tímann. Í sögunni er verið að leita að fólki í Lónsöræfum og svo er svo furðulegt að það var verið að leita að manni þar nú um daginn. Ég man aldrei eftir að hafa séð frétt um leit þarna áður þannig að þetta er furðuleg tilviljun. Þeir voru að leita með þyrlu og voru með hund og ég hugsaði: ansans, ég hefði átt að hafa hund,“ segir hún og hlær.

„Of seint!“

Yrsa segist hafa verið andlaus í upphafi þessara undarlegu tíma.

„Framan af var ég ekki dugleg og nýtti tímann ekki vel, en svo venst maður þessu. En ég get ekki beðið eftir að þessu ljúki. Það er svo sorglegt að horfa upp á atvinnuleysi og horfa upp á unga fólkið verða af félagslífi, svo ég tali nú ekki um einangrunina sem margir eldri borgarar þurfa að sæta.“

Ertu byrjuð á næstu bók?

„Nei, en kvöldið sem ég kláraði Bráðina og sendi hana frá mér fengum við okkur kvöldmat og eftir matinn hugsaði ég: Hvað get ég verið með næst? Pásan var hálftími, á meðan við borðuðum pítsu,“ segir hún og hlær.

„Ég er ekki alveg komin að niðurstöðu, en þetta er að malla. Ég er búin að taka ákvörðun um að byrja á nýrri seríu og er að þróa persónurnar,“ segir hún.

„Ég sest niður og byrja að skrifa í janúar, en ég hugsa að ég byrji fljótlega á næstu barnabók. Hún verður áfram um Bóbó og Amelíu,“ segir hún.

„Annars er ég farin að hlakka til jólanna; það er minn tími þegar allt stressið er búið. Ég er svo mikið jólabarn og safna jólakúlum. Ég á sturlað magn af jólakúlum til að hengja á tré og er fyrir vikið með nokkur.“