Knattspyrnulandslið Englands og Íslands eiga að mætast í Þjóðadeild UEFA hinn 18. nóvember næstkomandi á Wembley í Lundúnum en samkvæmt enska götublaðinu The Sun gæti sá leikur verið í hættu vegna hertra aðgerða stjórnvalda á Bretlandseyjum vegna kórónuveirufaraldursins.
Stjórnvöld á Englandi hafa tekið til þess ráðs að banna öll ferðalög til og frá Danmörku eftir að nýtt afbrigði af kórónuveirunni greindist í minkum þar í landi. Íslendingar eiga að mæta Dönum í Kaupmannahöfn í Þjóðadeildinni þremur dögum áður, 15. nóvember, og þyrfti liðið því að fá undanþágu til að ferðast til Englands.
Þá greinir miðillinn frá því að félagslið á Englandi muni reyna allt hvað þau geta til að koma í veg fyrir að leikmenn taki þátt í komandi landsliðsverkefnum, enda gætu leikmennirnir þurft að sæta sóttkví við heimkomuna til Englands og misst af leikjum fyrir vikið.
Reglur frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu heimila félagsliðum að banna leikmönnum sínum að mæta í verkefni landsliða sinna ef þeir þurfa að fara í sóttkví þegar þeir snúa aftur. Ólíklegt er að veittar verði sérstakar undanþágur vegna framkvæmd þessara leikja. Þó nokkrir leikmenn íslenska landsliðsins spila á Englandi, þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Jón Daði Böðvarsson og Rúnar Alex Rúnarsson, og er ólíklegt að þeir fái leyfi til að ferðast til Danmerkur. Þá spila fjölmargir danskir knattspyrnumenn á Englandi og líklegt að Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins, þurfi að gera breytingar á hópi sínum en upprunalega skipuðu hann níu leikmenn sem spila á Bretlandseyjum.