Bandaríkin geta ekki búið áfram við óreglu og jafnvel svindl í kosningum

Allar líkur eru á að Joe Biden taki við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar næstkomandi. Helstu fjölmiðlar vestra, sem sumir virðast telja að úrskurði um sigurvegara kosninga, hafa fullyrt að svo fari, en rétt er að hafa enn þann fyrirvara á að dómsmál eru fram undan sem hugsanlega gætu breytt niðurstöðunni. Alvarlegar ásakanir hafa verið settar fram um misferli við kosningarnar. Sumt blasir við, annað á eftir að sanna og allt slíkt verður vitaskuld að sanna fyrir dómi eigi það að hafa áhrif.

Slagurinn nú rifjar upp slaginn á milli varaforsetans Als Gores og frambjóðandans George W. Bush fyrir réttum tveimur áratugum. Margt er líkt með stöðunni þá og nú en annað ólíkt. Gore kærði talningu ítrekað og gaf sig ekki fyrr en undir miðjan desember eftir dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna. Allan tímann frá kosningum hafði Bush verið talinn sigurvegari og Gore jafnvel viðurkennt ósigur, en dró þá viðurkenningu til baka þegar hann eygði von um að geta barist fyrir dómstólum.

Varaforsetinn Gore hafði rétt til að kæra þá og það hefur forsetinn Trump einnig nú. Það sem upp úr stendur er þó að kosningafyrirkomulagið í Bandaríkjunum er algerlega óviðunandi og endurskoðun er nauðsynleg. Jeb Bush, sem var ríkisstjóri í Flórída þegar tekist var á þar fyrir tuttugu árum, ritaði grein í The Wall Street Journal um helgina og fór yfir hvernig Flórída tók til hjá sér eftir þau vandræði og væri nú til fyrirmyndar. Eftir þessar kosningar bíður Bandaríkjanna að taka alvarlega til í þessum málum. Það verður að laga það sem viðkemur póstkosningum og gera skýra kröfu um að allir sem kjósa færi sönnur á hverjir þeir eru. Í því ríki sem vill leiða hinn vestræna heim gengur ekki að kosningar einkennist ítrekað af óreglu og jafnvel svindli.