Óánægju hefur gætt hjá sumum útgefendum vegna topplista bókaútgefenda í október. Arnaldur Indriðason var á toppi listans, en svo vill til að bók hans kom út 1. nóvember sl. og hefði að mati margra ekki átt að geta verið á toppi októberlistans af þeim sökum. Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda segir að þótt hún hafi skilning á gagnrýninni megi rekja skýringuna til þess að óvenjumargir titlar komu út í forsölu í ár. Þeirra á meðal bók Arnaldar. „Það hefur margt breyst á einu ári og nú eru allir að selja bækur á netinu og í forsölu. Þangað til í fyrra var einungis ein bók sem hafði nokkru sinni komið í forsölu,“ segir Bryndís. Fyrir vikið hafi hún ákveðið að láta topplistann fara eftir sölutölum hvers dags. Ómögulegt sé fyrir sig að hafa yfirsýn yfir hvenær bækur eru afhentar.
Hinn valkosturinn við uppsetningu listans er að geyma sölutölur þar til bók er afhent viðskiptavinum þegar formlegur útgáfudagur er. Er það gert víða erlendis. „Hvenær kaupir maður bók og hvenær kaupir maður ekki bók?“ spyr Bryndís. vidar@mbl.is