Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Eins og kerfið er uppbyggt núna er allt of mikil áhersla lögð á að fólk fari inn á hjúkrunarheimili þegar í mörgum tilvikum er hægt að mæta þörfum þess betur og með minni tilkostnaði með aukinni stuðningsþjónustu heima. Þótt við náum stórauknum árangri að þessu leyti þarf engu að síður að fjölga hjúkrunarrýmum og þar hef ég kynnt stórsókn með framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma sem unnið er eftir,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hún var spurð að því hvernig fyrirsjáanlegri aukinni þörf á þjónustu við aldrað fólk yrði mætt. Hún svaraði skriflega og sagði að mikilvægt væri að vinna markvisst að því að efla getu ríkis og sveitarfélaga til að mæta aukinni þjónustuþörf sem fylgdi þeirri þróun. „Vinna þarf að fjölbreyttum leiðum og lausnum til að mæta þessari þjóðfélagsbreytingu. Markvissar forvarnir, heilsuefling og fyrirbyggjandi endurhæfing skiptir miklu máli. Stórauka þarf þjónustu sem gerir öldruðum kleift að búa lengur á eigin heimili. Hvað það varðar hef ég lagt áherslu á að fjölga dagdvalarrýmum, ekki síst sérhæfðum dagdvalarrýmum fyrir aldraða með heilabilunarsjúkdóma og eins hafa fjármunir verið auknir verulega í minni tíð til að efla heimahjúkrun.“

Bendir hún á að á þessu ári hafi fjármunir til að efla heimahjúkrun verið auknir um 130 milljónir króna og 200 milljónir settar í uppbyggingu á heilsueflandi móttökum í heilsugæslu um allt land. Móttökurnar eru ætlaðar eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál og eru mikilvægur liður í því að innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða.

Efniviður til meiri sáttar

Spurð hvernig hún hyggist leysa vandamál hjúkrunarheimila vegna lágra daggjalda og afleiðinga þess á þjónustuna segir Svandís að aukin þjónusta við aldraða heima og fjölgun hjúkrunarrýma muni bæta stöðuna varðandi biðlista. Þá segist hún binda vonir við að með niðurstöðu greiningar á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila í starfshópi undir forystu Gylfa Magnússonar fáist efniviður sem geri kleift að skýra málin og skapa um þau betri sátt.

Heilbrigðisráðherra segir að unnið sé að lausn á þeirri stöðu sem upp er komin vegna uppsagna fjögurra sveitarfélaga á þjónustusamningum um hjúkrunarheimili. Mikilvægast sé að tryggja samfellu í þjónustunni fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna. Þannig nálgun sé á málið hjá ráðuneytinu. Mögulega verði lausnir á stöðunni mismunandi eftir hjúkrunarheimilum.