Í Vísnahorni á fimmtudag var þessi staka eftir Tryggva Kvaran:
Þó alla hrelli Andskotinn
og enginn karlinn lofi
þá brennir hann ekki bæinn sinn
sem bóndinn þarna á Hofi.
Þorsteinn Ólafur Markússon sendi mér póst, þar sem hann segir frá annarri útgáfu af þessari vísu um bóndann á Stóra-Hofi, en hún er svona:
Þó allir lasti andskotann
og enginn verk hans lofi
þá brenndi hann ekki bæinn sinn
eins og bóndinn á Stóra-Hofi.
Ég þakka Þorsteini Ólafi bréfið. Lestur þess rifjaði upp fyrir mér húsgang sem ég lærði á Akureyri og kann enga skýringu á:
Allir þekkja andskotann
einkanlega af tvöfeldninni;
þeir eru líkir Hólmgeir og hann
Hólmgeir er bara dálítið minni.
Á Boðnarmiði yrkir Ármann Þorgrímsson um „kosningar fyrir vestan“:
Sýnast ganga í sömu spor
að sama marki liggur slóðin
Eflaust sigrar annar hvor
en ekki bandaríska þjóðin.
Indriði á Skjaldfönn gaf upp boltann með því að rifja upp þessa vísu eftir Jósep Húnfjörð:
Bakkus sund á opin enn,
ættargrundarfjandi,
leiðir stundum listamenn
líkt og hunda í bandi.
Ingólfur Ómar svaraði:
Vínið blekkir marga menn
mein sem þekkist víða.
Sínum drekkja sorgum enn
sálarhnekki bíða.
Kristjana Sigríður Vagnsdóttir fór með „Andbyr“ eftir Elías Mikael Vagn Þórarinsson:
Margur varð af víni spilltur
voldug seiddi hugans þrá.
Svona er að vera villtur
vegamótum lífsins á.
Baldur Grétarsson rifjaði upp Jón Sigfinnsson Austfirðing:
Bakkus enginn bragða má.
Bakkus tjóni veldur.
Bakkusskerjum brýtur á.
Bakkus sínu heldur.
Erlingur Gunnarsson tók eina sígilda eftir Káinn, – „Manga var að vísa honum út af kránni“:
Gamli Bakkus gaf mér smakka
gæði lífsins öl og vín
Honum á ég það að þakka
að þú ert ekki konan mín.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is