Hinrik Bjarnason
Hinrik Bjarnason — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Hinrik Bjarnason: "Um samskipti barna sín á milli og við umhverfið og hvatning til menntamálaráðuneytisins að gefnu tilefni."

Ýmsar spurningar um mjög forvitnileg efni eru þess eðlis að maður kinokar sér við að bera þær upp; sumar beinast jafnvel að málavöxtum þar sem fæstir hafa getað vænst svara af skynsamlegu viti. Af þessum sökum hafa þó nokkrar myndir algengra og bráðnauðsynlegra sagnorða í tungu okkar legið lítt notaðar.

Ég held áfram að hlera tungutak fjórðubekkinganna í Smáíbúðahverfinu, sófistanna, sem sitja tímunum saman í sófanum og eiga sífelld orðaskipti sín á milli og við hina og aðra samherja eða andstæðinga í orrahríðum dagsins á ljósvakanum. Fólkorrustur eru tíðar, hetjur falla en rísa óðar upp aftur; hér eru í gangi þau tilverustig, sem þótt hefðu eðlileg með einherjum í Valhöll á sinni tíð. Enda kemur þar sögunni í einni hleruninni að ég heyri einherja í sófanum spyrja annan úti í ljósvakanum þessarar blátt áfram spurningar: „Hvernig dóstu?“ Fullkomlega rétt orðuð spurning hvernig sem á málið er litið, en samt ekki sú orðmynd sem maður getur í fljótu bragði séð sig hafa þörf fyrir dagsdaglega, nema þá í tilvikum eins og þegar Ari heitinn Jósefsson tók í olnbogann á Braga Kristjónssyni á miðilsfundinum hjá Hafsteini miðli, eins og frá var sagt í Morgunblaðinu núna 24. október. Þó fyllir þetta litla tilvik um óvenjulega notkun sagnarinnar „að deyja“ nokkurri bjartsýni þann, sem var í holti sófistanna heyrandi nær. Þarna ræður varla ferðinni sú regla, að svo læri börnin málið sem það sé fyrir þeim haft – nær væri kannski að segja að svo læri börnin að laga tunguna að eigin þörfum og eftir tímanna takti eins og umhverfið gefur þeim kost á. Það sýnist því fullkomlega rökrétt að velta því fyrir sér hvort menntamálaráðuneytið ætti ekki, í lofsverðum aðgerðum sínum til viðhalds og eflingar íslenskri tungu, að taka upp öflugt samstarf við fyrirtæki á borð við CCP. Þau fyrirtæki eru meðal annars hinir stóru áhrifavaldar í mótun frásagnarlistar og málvitundar barna samtímans á þýðingarmestu árum málþroskans, og frásagnarháttur þeirra flestum börnum líklega tíðum nákomnari en bókmálið.

Höfundur er eftirlaunaþegi eftir tæplega 50 ára starf að æskulýðsmálum og fjölmiðlun.

Höf.: Hinrik Bjarnason