Sjávarþorpið Í dag búa um 200 manns á Flateyri. Á velmektartímum byggðarinnar voru íbúar um 550, sem þykir óraunhæft að ná aftur.
Sjávarþorpið Í dag búa um 200 manns á Flateyri. Á velmektartímum byggðarinnar voru íbúar um 550, sem þykir óraunhæft að ná aftur. — Ljósmynd/Ingvar Jakobsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Tækifærin hér á Flateyri eru mörg og nú þarf að skapa jarðveg svo sprotarnir nái að dafna,“ segir Helena Jónsdóttir.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tækifærin hér á Flateyri eru mörg og nú þarf að skapa jarðveg svo sprotarnir nái að dafna,“ segir Helena Jónsdóttir. Um mitt þetta ár tók hún við stjórn verkefnis sem stofnað er til á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðastofu sem miðar að eflingu byggðar á Flateyri með nýsköpun og samfélagsþróun að leiðarljósi. Á næstu árum mun ríkið leggja alls 60 millj. kr. til ýmissa þátta sem styrkt geta byggðina í þorpinu við Önundarfjörð sem sannarlega hefur gefið eftir. Þar búa nú liðlega 200 manns, en á velmektartímum um 1980 voru íbúarnir um 550 og þegar landburður var af fiski því til viðbótar fjöldi aðkomufólks í leit að ævintýrum.

Bátasmíði og baðstaður

„Markmiðið nú er í sjálfu sér ekki að ná íbúatölunni aftur í sömu hæðir, enda sennilega óraunhæft,“ segir Helena. „Fremur er ætlunin að vekja athygli á tækifærunum sem hér eru til þess að gera spennandi hluti. Koma mörgum, kröftugum verkefnum af stað, í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, liststarfsemi og fleiru slíku. Skapa þannig kröftuga heild. Í verkefnum sem þessum hefur sú aðferðarfræði hvarvetna gefið góða raun.“

Eitt af fyrstu verkefnum Helenu sem verkefnisstjóri var að vinna með íbúum og öðrum áhugasömum að umsóknum um styrki sem buðust til að koma góðum verkefnum á Flateyri af stað. Í potti voru níu milljónir króna, 21 umsókn barst og 15 verkefni fengu styrk. Mörg voru á sviði ferðaþjónustu, en einnig gerð viðskiptaáætlunar fyrir fiskvinnslu, námskeið í bátasmíði, könnun á því að útbúa sjóboð við Holt í Önundarfirði og fleira.

Á næstu vikum hefst á Flateyri vinnsla á sæbjúgum. „Við horfum líka til þess að fiskeldið hér í Önundarfirði komist vel af stað, enda skapar sú starfsemi mörg störf og kallar á mikla flutningar og þar með öruggar samgöngur. Styrkur þessarar byggðar felst annars ekki síst í því að hér eru ágætir innviðir, svo sem skólar, íþróttaaðstaða, veitukerfin, nettengingar og fleira auk þess sem ekki er langt að sækja alla helstu þjónustu inn á Ísafjörð, sem er í um 20 mínútuna akstursfjarlægð frá Flateyri.“

Snjóflóðin voru áfall

Helena segir því ekki leyna að í snjóflóðunum í janúar sl. hafi íbúum verið áfall að varnargarðarnir fyrir ofan bæinn væru ekki sú vörn sem vænst var. Flóðið fór yfir garðana, út í höfn og á íbúðarhús.

„Snjóflóðið braut niður þá tilfinningu sem fólk hér hafði um að garðarnir væru vörn og því þurfti að hugsa málin hér alveg upp á nýtt. Útbúnar hafa verið nýjar rýmingaráætlanir fyrir hættusvæði og svo verða snjóflóðavarnagarðarnir líka endurbættir. Vilji til þess að bæta búsetuskilyrði hér á Flateyri af hálfu stjórnvalda er sannarlega fyrir hendi.“

Flateyri í hjarta og sál

Um 30 nemendur stunda í dag nám við Lýðháskólann á Flateyri, sem nú er á þriðja starfsvetri. Náttúran, útivist og skapandi greinar eru áherslugreinar í náminu, sem er án prófa og brautskráningin er sú að fólk fari eftir veturinn út í lífið með aukinn þroska og víðsýni.

„Ég kom hingað til starfa snemma árs 2018 sem nýráðin framkvæmdastjóri lýðskólans. Fyrir lá að safna þyrfti 40 milljónum króna á fjórum mánuðum til þess að hægt væri að hefja skólastarf að hausti. Ég settist því við símann, skrifaði bréf, talaði við fólk og hamaðist í nánu samstarfi við stjórnarmenn og aðra velunnara uns markmiðinu var náð. Í þessum samtölum fannst mér eftirtektarvert hve ótrúlega margir höfðu tengsl við staðinn; áttu hingað ættir eða maka héðan, höfðu dvalist eða unnið eða voru á einhvern annan hátt með Flateyri í hjarta sínu og sál. Þetta var langt umfram það sem búast hefði mátt við miðað við íbúafjöldann hér, bæði nú og fyrr á tímum. Í þessu felst mikill styrkur og þess vegna er ég bjartsýn á að okkur takist að koma hér góðum málum til leiðar til vaxtar og viðgangs á Flateyri.“

Hver er hún?

• Helena Jónsdóttur fæddist árið 1972 og er sálfræðingur að mennt. Hún hefur sinnt fjölbreyttum störfum, svo sem við Lýðháskólann á Flateyri, sem starfar samkvæmt norrænni fyrirmynd.

• Áður hefur Helena starfað sem verkefnastjóri og ráðgjafi á vegum samtakanna Lækna án landamæra í Afganistan, Suður-Súdan, Egyptalandi og Líbanon. Áður var hún m.a. sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi og síðar Glitni.