Fagnað Frá vinstri: Douglas Emhoff, maður varaforsetaefnisins, Kamala Harris varaforsetaefni, Joe Biden forsetaefni og dr. Jill Biden eiginkona hans.
Fagnað Frá vinstri: Douglas Emhoff, maður varaforsetaefnisins, Kamala Harris varaforsetaefni, Joe Biden forsetaefni og dr. Jill Biden eiginkona hans. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Joe Biden verði 46. forseti Bandaríkjanna í janúar, þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti dragi kosningaúrslit í sumum ríkjum í efa og fyrir liggi dómaraúrskurður um að póstatkvæði í Pennsylvaníu séu höfð til hliðar, reynist þau hafa áhrif á landsvísu. Atkvæðamunurinn er svo mikill, að einstaklega ósennilegt er að endurtalning eða endurmat á gildi atkvæða hafi þar áhrif á.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Joe Biden verði 46. forseti Bandaríkjanna í janúar, þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti dragi kosningaúrslit í sumum ríkjum í efa og fyrir liggi dómaraúrskurður um að póstatkvæði í Pennsylvaníu séu höfð til hliðar, reynist þau hafa áhrif á landsvísu. Atkvæðamunurinn er svo mikill, að einstaklega ósennilegt er að endurtalning eða endurmat á gildi atkvæða hafi þar áhrif á.

En þó svo að flestir telji sigur Bidens í höfn, þá verður ekki hjá því litið, að þar var mjög mjótt á munum og í ljós kom að Donald Trump átti mun meiri stuðning og víðtækari en flestir höfðu gert ráð fyrir í kosningabaráttunni, bæði stjórnmálaskýrendur og skoðanakönnuðir. Það veikir umboð Bidens.

Biden sigraði en það gerðu repúblikanar líka

Demókratar fagna því að Trump sé á förum, en þeir eru samt hnuggnir yfir úrslitunum. Mörgum þeirra brá yfir hve naumlega forsetinn féll og fékk raunar fleiri atkvæði en Barack Obama í miklum kosningasigri sínum 2008. Repúblikanar unnu óvænt sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en verra þykir demókrötum þó að hafa ekki náð meirihluta í öldungadeildinni. Eins höfðu þeir búist við að fella meirihluta repúblikana í 10-14 ríkjaþingum, en það gekk síður en svo eftir.

Reyndar er tæplega hægt að lesa annað úr úrslitunum en að dágóður hluti kjósenda hafi hafnað Trump en ekki Repúblikanaflokknum.

Sennilega var enn meira um það meðal hefðbundinna kjósenda en sú tala segir til um, því kjörsókn var mun meiri en vant er og rannsóknir benda til þess að meðal hinna „nýju“ kjósenda hafi ekki aðeins verið á ferðinni fólk, sem vildi losna við Trump. Margir hafi kosið Trump með hálfum huga til að láta í ljós andstöðu við hugmyndir menningarbyltingarsinna á vinstri jaðri Demókrataflokksins.

Verður Joe Biden þó seint sakaður um að vera vinstriöfgamaður. Öðru nær, hann er miðjumoðari og maskínupólitíkus með gamla laginu, sem hafði varla fyrir því að kynna stefnumál sín í kosningabaráttunni, svona fyrir utan að minna á að hann væri ekki Donald Trump. Sem virðist hafa dugað til.

Það kann hins vegar að veitast honum flóknara í embætti. Vinstri vængurinn í flokknum, með sjálfa AOC, Alexandriu Ocasio-Cortez, í broddi fylkingar, lítur svo á, að umboð sitt og áhrif hafi aukist mjög í kosningunum, þó að erfitt sé að lesa það úr kosningaúrslitum. Að hluta til er títtnefndum könnunum um að kenna, sem spáðu Biden afgerandi kosningasigri, sem svo kom ekki.

Reynir á sáttfýsi Bidens

Árangur repúblikana mun þó reynast honum þyngri í skauti í upphafi, sérstaklega í öldungadeildinni. Demókratar hafa að vísu fræðilegan möguleika á að merja jafnan hlut þar með sigri í aukakosningum í Georgíu í janúar, en þá fær varaforsetinn oddaatkvæði í deildinni. Það er ekki gefin veiði. Biden verður því mögulega fyrsti forseti Bandaríkjanna síðan George Bush eldri tók við embætti 1989, sem ekki hefur báðar deildir þingsins á sínu bandi í upphafi kjörtímabils.

Það mun skipta verulegu máli fyrir nýja forsetann, sem þarf að bera ráðherraefni sín undir öldungadeildina þeim til staðfestingar. Þar mun reyna mjög á yfirlýsta sáttfýsi Bidens, sem segist vilja græða sárin á þjóðarlíkamanum. Vill hann teygja sig yfir ganginn í þinginu og semja við repúblikana um ráðherrana og þá að líkindum um stefnuáherslur líka?

Það kæmi repúblikönum líka vel að sýna sáttfýsi. Flokkurinn þarf að jafna sig eftir Trump og taka stefnu sína til endurskoðunar. Að því leyti koma úrslitin því repúblikönum ekki illa, þeir þurfa næði til þess að koma sér í lag fyrir kosningarnar 2024, þegar Kamala Harris varaforsetaefni verður mjög sennilega forsetaframbjóðandi demókrata.