Stórmeistarajafntefli Sadio Mané sækir að Rodri í viðureign stórliða Liverpool og Manchester City á Etihad-leikvanginum í gærkvöldi.
Stórmeistarajafntefli Sadio Mané sækir að Rodri í viðureign stórliða Liverpool og Manchester City á Etihad-leikvanginum í gærkvöldi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Englandsmeisturum Liverpool mistókst að endurheimta toppsæti úrvalsdeildarinnar eftir 1:1-jafntefli gegn Manchester City á Etihad-leikvanginum í stórleik 8. umferðarinnar í gærkvöldi.

England

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is Englandsmeisturum Liverpool mistókst að endurheimta toppsæti úrvalsdeildarinnar eftir 1:1-jafntefli gegn Manchester City á Etihad-leikvanginum í stórleik 8. umferðarinnar í gærkvöldi. Kevin de Bruyne klúðraði vítaspyrnu, sem reyndist heimamönnum ansi dýrkeypt.

Meistararnir blésu til sóknar í Manchester er Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, stillti upp afar sóknarsinnuðu liði; Diogo Jota byrjaði ásamt þremenningnum heilögu; Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah. Þessi djarfa uppstilling virtist ætla að skila tilætluðum árangri er gestirnir byrjuðu með látum og tóku forystuna strax á 13. mínútu. Mané var felldur inni í vítateig af Kyle Walker og Salah skoraði úr vítaspyrnunni.

Heimamenn jöfnuðu þó metin með laglegu marki Gabriels Jesus og fengu svo gullið tækifæri til að komast yfir skömmu fyrir hálfleik þegar Joe Gomez handlék knöttinn og City fékk vítaspyrnu. De Bruyne setti knöttinn hins vegar framhjá markinu og hvorugu liði tókst að kreista fram sigurmark þótt heimamenn hafi komist nærri því með sterkari frammistöðu í síðari hálfleik.

Meistararnir eru sennilega ekki alls ósáttir með stigið gegn sínum helstu keppinautum um meistaratitilinn undanfarin ár. Það vantar lykilmenn í þetta Liverpool-lið, Virgil van Dijk, Fabinho og Thiago Alcantara til að mynda, og þá fór Trent Alexander-Arnold meiddur af velli í gær. Meistararnir eru vængbrotnir og virtust þollitlir á endasprettinum í leiknum. Þeir neituðu hins vegar að játa sig sigraða og uppskáru stig.

City þurfti aftur á móti á sigri að halda eftir slitrótta byrjun hjá lærisveinum Peps Guardiola. City er með tólf stig eftir fyrstu sjö leiki sína og hefur enn ekki tekist að vinna tvo leiki í röð. Stjórar beggja liða kvörtuðu sáran undan leikjaálagi í viðtölum við Sky Sports eftir leik. Bæði lið taka þátt í Meistaradeildinni þar sem spilað er í nánast hverri viku og skilja þeir Klopp og Guardiola ekkert í þeirri ákvörðun deildarinnar að leyfa ekki fimm skiptingar áfram, eins og gert var í sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

Mikilvægur sigur gegn Gylfa

Manchester United vann lífsnauðsynlegan sigur á laugardaginn er liðið sótti þrjú stig gegn Everton, lokatölur 3:1 á Goodison Park. Bruno Fernandes skoraði tvö fyrir gestina og Edison Cavani skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið er United komst aftur á beinu brautina. Bernard hafði komið Everton yfir snemma leiks en liðinu hefur heldur betur fatast flugið eftir öfluga byrjun á tímabilinu. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton en tekinn af velli eftir 66 mínútur er liðinu mistókst að vinna í fjórða leiknum í röð.

Jóhann Berg Guðmundsson er að snúa til baka eftir smávægileg meiðsli og kom ekki við sögu í markalausu jafntefli Burnley gegn Brighton á föstudaginn. Íslenski landsliðsmaðurinn var ónotaður varamaður í leiknum.

Rúnar Alex Rúnarsson var ónotaður varamarkvörður Arsenal sem tapaði 3:0 á heimavelli gegn Aston Villa í gærkvöldi.