Ungverska landsliðið í knattspyrnu varð fyrir áfalli í gær þegar ljóst varð að miðjumaðurinn László Kleinheisler verður ekki með liðinu er það mætir Íslandi í hreinum úrslitaleik í Búdapest um sæti í lokakeppni EM næstkomandi fimmtudag.
Kleinheisler er 26 ára og leikmaður Osijek í Króatíu en hann fær ekki að ferðast í landsleikinn sökum þess að hann þyrfti að fara í sóttkví þegar hann kæmi aftur til Króatíu. Hann á að baki 23 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað þrjú mörk. Miðjumaðurinn hefur leikið með liðum á borð við Werder Bremen, Darmstad og Astana.
Kleinheisler hefur leikið alla níu deildarleiki Osijek á leiktíðinni, en enn ekki skorað mark. Hann lék með Ungverjum gegn Íslandi á EM í Frakklandi 2016 og þykir einn af þeirra bestu mönnum.