Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir í umsögn sinni um frumvarp til breytinga laga um bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða á heimilum, að mat sitt sé að nauðsynlegt sé að börn með fatlanir sem vistuð voru á einkaheimilum fái að tjá sig um dvöl sína þar, líkt og börn sem vistuð voru á stofnunum ríkisins fengu að gera. Skapa þurfi vettvang þar sem einstaklingar sem vistaðir voru sem börn á einkaheimilum fyrir tilstilli hins opinbera, þ.e. barnaverndaryfirvalda, geti gert upp dvöl sína. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og mælir það fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til handa þeim sem hlutu varanlegan skaða af illri meðferð eða ofbeldi í úrræðum hins opinbera. Í umsögninni segir meðal annars: „Telur stofan mikilvægt að sá hópur barna sem vistaður var af opinberum aðila á einkaheimilum, bæði vegna fötlunar og annarra ástæðna, fái jafnframt að gera upp vistun sína á slíkum heimilum með þeim hætti að hið opinbera búi til vettvang þar sem þau geta greint frá uppvexti sínum og aðstæðum á umræddum heimilum, líkt og einstaklingum sem vistaðir voru á barnsaldri hefur verið gert kleift.“ oddurth@mbl.is