Óvissa Áhugavert verður að sjá hvernig sambandið við Íran og Venesúela þróast.
Óvissa Áhugavert verður að sjá hvernig sambandið við Íran og Venesúela þróast. — AFP
Leiðandi aðildarríki OPEC óttast að kjör Joes Bidens í embætti Bandaríkjaforseta kunni að valda aukinni togstreitu á meðal OPEC-landanna og samstarfsþjóða þeirra.

Leiðandi aðildarríki OPEC óttast að kjör Joes Bidens í embætti Bandaríkjaforseta kunni að valda aukinni togstreitu á meðal OPEC-landanna og samstarfsþjóða þeirra. Reuters greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem þekkja vel til starfsemi samtakanna.

Í upphafi forsetatíðar sinnar var Trump gagnrýninn á stefnu OPEC en snerist síðar hugur og lagði lóð sín á vogarskálarnar við að draga úr olíuframleiðslu svo að tækist að ná jafnvægi á olíumarkaði. Átti hann þátt í að koma á sáttum á milli Sádi-Arabíu og Rússlands þegar virtist ætla að slitna upp úr samstarfi OPEC og samstarfsríkja samtakanna fyrr á þessu ári, en það gerði hann m.a. til að vernda störf í bandarískum olíuiðnaði sem voru í hættu vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu.

Markaðsgreinendur munu m.a. fylgjast náið með hvaða stefnu Biden tekur gagnvart ríkjum á borð við Sádi-Arabíu, Rússland, Íran og Venesúela . Ef úr verður að slaka á viðskiptaþvingunum gagnvart Venesúela og Íran gæti það þýtt að milljónir fata af olíu bættust við markaðinn daglega sem mun torvelda OPEC að láta framboð olíu fylgja eftirspurn. ai@mbl.is