Amalía Berndsen fæddist 22. september 1959. Hún lést 18. október 2020.

Útför Amalíu fór fram 4. nóvember 2020.

Með því dýrmætasta í þessu lífi er að eiga góða vini og hún Milla vinkona mín var einstök. Hún var ósérhlífin og hugsaði fyrst og fremst um aðra en sjálfa sig og kom það berlega fram í veikindum hennar.

Okkar kynni hófust þegar við unnum saman í launadeildinni hjá Eimskipafélagi Íslands ungar að árum og urðum við fljótt góðar vinkonur og kærustum okkar, síðar eiginmönnum, varð vel til vina. Þessi vinskapur hefur haldist alla tíð.

Meðan börnin uxu úr grasi fórum við oft í ferðalög saman. Já þetta voru góðir tímar, mikið spilað og hlegið.

Undanfarin ár ferðuðumst við meira erlendis og margar ferðir voru í smíðum hjá okkur á komandi árum. En enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og nú er ljóst að ferðirnar verða ekki fleiri með þér Milla mín. Þá ber að minnast allra skemmtilegu ferðanna. Skíðaferðirnar til Vail eru ógleymanlegar. Milla og Bjössi lögðu ríka áherslu á það að við yrðum að vera í betra formi en við vorum í afmælisferðinni hans Guðjóns árið á undan. Já, þau skipuðu okkur að fara til einkaþjálfara a.m.k. þremur mánuðum áður, sem við og gerðum í bæði skiptin. Með Millu og Bjössa var ekki slegið slöku við, ó nei. Í fjallið þegar það var opnað og niður með síðustu lyftu ef ekki var hægt að skíða niður. Þetta var eins og þau voru búin að lýsa þessu; brekkurnar breiðar, langar, margar og færið frábært allan daginn.

Í byrjun júlí hringdi Milla og spurði hvort við hjónin værum ekki til í smá bíltúr og gista í Vík. Jú, við vorum sko til í það. Keyrðum um uppsveitir Suðurlands, með borð og stóla eins og í gamla daga, og svo alla leið í Jökulsárlón. Komum til baka sæl og glöð eftir 872 km skemmtiferð.

Fyrir nokkrum árum keyptu þau bæinn Miðdal í grennd við Bolungarvík ásamt systur Millu og manni hennar. Í sveitinni kynntust þau góðum vinum og var Milla hrókur alls fagnaðar og mikill höfðingi heim að sækja. Síðla sumars undanfarin ár höfum við Guðjón farið þangað og átt frábæra tíma með þeim ásamt hópi af barnabörnunum þeirra og okkar. Ávallt hefur verið mikil tilhlökkun ár hvert fyrir ferðinni, enda einn af hápunktum hvers sumars. Á hverjum morgni í Miðdal var morgunmatur Millu „style“; yfirhlaðið borð af veitingum eins og henni var einni lagið. Eftir að barnabörnin okkar voru send með flugi heim nú í sumar fórum við í „ferðalagið okkar“ sem við vorum búnar að tala um og skipuleggja í allt sumar. Ferðalag um sunnanverða Vestfirði sem var farin í logni og blíðu. Svo sannarlega frábær ferð. Þrátt fyrir að þróttur Millu væri farinn að dvína gaf hún ekkert eftir og labbaði m.a. með okkur hálfa leið upp að Dynjanda. Já, það var engin uppgjöf.

Elsku Milla mín, þakka þér fyrir allt. Vinátta þín var mér mikils virði.

Bjössi minn, Inga Björk, Haraldur, Berglind, makar og barnabörnin Friðrik, Amalía, Brynjar og Hera Lind, missir ykkar er mikill en góðar minningar lifa með ykkur.

Guðný Edda.