Skólastarf Grímurnar eru þarfaþing en þreytandi að bera til lengdar.
Skólastarf Grímurnar eru þarfaþing en þreytandi að bera til lengdar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karitas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is Sviðsmyndir um þróun kórónuveirufaraldursins eru verða skýrari samkvæmt nýju spálíkani sem birt var í gær á vef Háskóla Íslands.

Karitas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

Sviðsmyndir um þróun kórónuveirufaraldursins eru verða skýrari samkvæmt nýju spálíkani sem birt var í gær á vef Háskóla Íslands. Áfram er gert ráð fyrir að smitum fækki jafnt og þétt, þó breytingin frá fyrri spám sé í raun ekki mikil.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir við Morgunblaðið að útlitið sé gott en það sé í raun óþægileg staða þar sem Ísland sé algjör undantekning á heimvísu, annars staðar er vöxtur.

Enn er kórónuveiran í miklum vexti á meginlandi Evrópu, mest í Tékklandi, Lúxemborg, Belgíu og Liechtenstein. Á Norðurlöndum er veiran í mestum vexti í Svíþjóð.

Á miðvikudag fór tala látinna í Bretlandi af völdum veirunnar yfir 50.000. Þá hækkar tala daglegra smita stöðugt í Bandaríkjunum.

Thor segir að með fleiri smitum úti í heimi aukist hætta á að smit sleppi í gegnum tvöfalda skimunarkerfið við íslensku landamærin. Mjög mikilvægt sé, nú þegar Íslendingar koma heim fyrir jól úr námi eða lengri dvöl erlendis, að virða heimkomusóttkvína.

Snýst allt um smitstuðulinn

Spálíkanið er birt á heimasíðunni covid.hi.is og segir þar að grundvallaratriði sé að lækka smitstuðulinn marktækt undir 1 og halda honum þannig. „Ef smitstuðull fer yfir 1 er til staðar ástand þar sem smit geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt. Hertar aðgerðir miða að því að lækka smitstuðulinn og hraðar en forsendur okkar gera ráð fyrir,“ segir í pistli sem fylgir spálíkaninu. Í því fyrra – sem var birt í lok október – var smitstuðull utan sóttkvíar metinn 2,1 með spábilið 0,8-4,4 og möguleiki á veldisvexti fyrir hendi.

Mat á smitstuðli stendur nú í 0,4 en óvissubilið er stórt og efri mörk þess setja smitstuðulinn rétt yfir 1.

„Tölfræðilíkön þurfa oft stórar tölur eða stöðugar tölur og við höfum hvorugt svo þetta ber að túlka varlega,“ segir Thor. „Smitum í heildina hefur verið að fækka þó að það komi smá kippir í þetta. Aftur eru 20 smit, plús mínus, það er há tala. Það er ekkert öruggt og smitin þurfa að fara eitthvað almennilega niður svo að maður geti verið rólegur með þetta.“

Thor segir árangur takmarkana vera heldur meiri en gert var ráð fyrir í fyrra líkani. Enn sé möguleiki á því að smitstuðull verði markvisst undir 1 fyrir upphaf aðventu.