Flugnám Kórónuveiran setur strik í reikning flugmanna framtíðar.
Flugnám Kórónuveiran setur strik í reikning flugmanna framtíðar.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Ég held að það sýni allir skilning á ástandinu en auðvitað vonum við að slakað verði á takmörkunum fyrr en seinna svo við getum haldið áfram.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég held að það sýni allir skilning á ástandinu en auðvitað vonum við að slakað verði á takmörkunum fyrr en seinna svo við getum haldið áfram. Maður finnur það á nemendunum að þeir eru orðnir þreyttir og pirraðir á þessari fjarkennslu,“ segir Davíð Brár Unnarsson, skólastjóri Flugakademíu Íslands.

Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins hafa sett strik í reikninginn hjá nemendum Flugakademíunnar að undanförnu. Heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér þau tilmæli að verklegt flugnám og kennsla þar sem ekki væri unnt að viðhalda tveggja metra nálægðartakmörkunum væri óheimil fram til 17. nóvember næstkomandi.

Davíð segir að bókleg kennsla hafi að mestu farið fram á Teams, að minnsta kosti þar sem því hefur verið við komið. Ekki sé þó hægt að kenna að fullu leyti í gegnum fjarfundi. Tveir bekkir eru í bóklegu námi í skólanum í Keflavík og þrír í Reykjavík, samtals rúmlega eitt hundrað nemendur. Annar eins fjöldi er svo í verklegu námi við skólann.

Erlendir nemar í biðstöðu

„Eins og staðan er núna er öll verkleg kennsla stopp. Nema það sem við köllum sólóflug, eða einliðaflug,“ segir Davíð. Hann segir aðspurður að þetta sé ekki góð staða, síst fyrir erlenda nemendur sem séu í algjörri biðstöðu með verklegt nám sitt. Um 20-30 erlendir nemendur eru í verklegu námi við Flugakademíuna og segir Davíð að þetta komi verst við þá enda þurfi þeir að halda sér uppi og borga leigu og treysta á námsstyrki og lán. „En þetta hefur áhrif á alla nemendur að einhverju leyti.“