Gervilimrur Gísla Rúnars er einstök bók, – hún hefur glaðlegt yfirbragð enda skemmtileg og oft fyndin. Þar skiptast á limrur og myndir, sem hafa verið tíndar saman hver úr sinni áttinni, sumar svarthvítar, aðrar í öllum regnbogans litum.

Gervilimrur Gísla Rúnars er einstök bók, – hún hefur glaðlegt yfirbragð enda skemmtileg og oft fyndin. Þar skiptast á limrur og myndir, sem hafa verið tíndar saman hver úr sinni áttinni, sumar svarthvítar, aðrar í öllum regnbogans litum. Það er auðvelt að gleyma sér við lestur þvílíkrar bókar.

Við limruna „Sódóma & skómorra“ er þessi athugasemd: „Öll líkindi með persónum er fram koma í þessari limru & raunverulegum persónum, dauðum eða lifandi, ber að skoða sem einskæra tilviljun.“

Ketill var skóari kómískur

sem kættist ef heyrðist í skóm ískur,

en neitaði að gera

við nokkuð af séra

Daníel, sem var só-dómískur.

„Limrupáté. – Thanksgiving & taking“ með þeirri athugasemd, að flestum okkar líði betur með að neyta afurða þegar við vitum að dýrin hafa átt gott líf og verið slátrað á mannúðlegan hátt. (Matvælastofnun.)

Krúttlegan ól ég upp kátan

kalkún á lífræna mátann

við aðstæður blíðar.

En árinu síðar

ég auðvitað skaut 'ann og át 'ann.

„Í organísku fæði“. Úr Thorrabakkarímum eftir Olav Per Vert.

Ef þorra þig þyrstir að blóta

og þjóðlegra rétta að njóta

þú útvegar bút

af ársgömlum hrút

sem uppruna á milli fóta.

„Staðfestur fyrirburður“

Listin sú eðla að ljúga

ljær okkur andagift drjúga,

því skröksögur hafa

þann skapandi vafa

sem hvetur oss til þess að trúa.

„Sjónvarp í upphafi vega. – Umskiptin miklu úr hljóði í mynd.“

Er skjárinn var kominn til skjala

um „skipti“ var varla að tala,

jú, hlustendur gátu

ef við sjónvarp þeir sátu

séð þá sem voru að tala.

„Valgerður fer vill vegar“

Í massífri mannmergð og þröng

í Mílanó spurði 'ún mig ströng:

„Hvernig kemst ég á Scala?“

Ég kvað: „Elsku Vala,

með iðkun á óperusöng.“

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is