[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón fæddist 13. nóvember 1960 og er alinn upp í Reykjavík. Hann gekk einn vetur í Ísaksskóla og síðan í Hlíðaskóla, þreytti landspróf í Vörðuskóla og svo lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð. „Ég var hálfmeðvitundarlaus í skóla öll...

Jón fæddist 13. nóvember 1960 og er alinn upp í Reykjavík. Hann gekk einn vetur í Ísaksskóla og síðan í Hlíðaskóla, þreytti landspróf í Vörðuskóla og svo lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð. „Ég var hálfmeðvitundarlaus í skóla öll unglingsárin. Ég átti auðvelt með nám og leiddist frekar en hitt og var oftast nær með hugann við eitthvað annað. Ég man t.d. lítið eftir landsprófinu nema hvað nokkrum sinnum var vasataflið mitt gert upptækt í kennslustund og mér gert að sækja það til skólastjórans.“

Jón lærði mannganginn sex ára gamall en skákáhuginn kviknaði ekki af alvöru fyrr en sumarið 1972 þegar Fischer og Spasskí áttust við í Laugardalshöllinni. „Ég fór sjálfur á þrjár skákir í einvíginu, þar á meðal fyrstu skákina og mér er enn minnisstæður kliðurinn sem fór um salinn þegar Fischer drap peð á h2 sem flestir töldu glapræði. Fram að því sigldi skákin lygnan sjó en varð nú í einu vetfangi æsispennandi.“

Jón tók þátt í sínu fyrsta skákmóti haustið 1972 og fjórum árum síðar varð hann skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur. „Ég var þá á 1. ári í MH og vann Stefán Briem 3-0 í einvígi um titilinn en hann var þá að kenna mér eðlisfræði. Hann lét mig ekki gjalda þess en eflaust hefur honum verið strítt á kennarastofunni, þar sem var margt góðra skákmanna. Hann hefur þó fengið uppreist æru ári síðar þegar ég varð heimsmeistari.“

Árið 1977 varð Jón Íslandsmeistari í skák, yngstur allra fram að því til að vinna titilinn. Síðar um sumarið varð hann Norðurlandameistari unglinga og loks heimsmeistari undir 17 ára eftir sigur á heimsmeistaramótinu í Cagnes-sur-Mer í Suður-Frakklandi. Á mótinu voru ýmsir sem síðar áttu eftir að láta að sér kveða á skáksviðinu, svo sem Englendingurinn Nigel Short og Garrí Kasparov, sem varð að sætta sig við 3. sætið. „Það var mikið gert með sigur minn á mótinu og sumir sögðu að þetta hefði verið fyrsti heimsmeistaratitill Íslendings í nokkurri grein. Mér var margvíslegur sómi sýndur, m.a. hélt Vilhjálmur frá Brekku, sem þá var menntamálaráðherra, kaffisamsæti mér til heiðurs, ég var valinn maður ársins af lesendum Vísis og mér bárust gjafir og heillaóskir víða að.

Segja má að skákin hafi átt hug minn allan næstu árin. Ég lauk stúdentsprófi af eðlissviði á þremur og hálfu ári en mér telst til að á skólatíma hafi ég samtals verið um þriðjung af námstímanum við skákiðkun erlendis. Guðmundur Arnlaugsson rektor var gamall skákjöfur sjálfur og ég samdi við hann um undanþágu frá mætingaskyldu. Ég stundaði einnig píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík en sá ekki annan kost en að gefa það upp á bátinn.“

Að loknu stúdentsprófi lá leið Jóns í viðskiptafræði í Háskóla Íslands, þar sem hann lauk cand.oecon.-prófi 1986. Sama ár var hann útefndur stórmeistari í skák á þingi alþjóðaskáksambandsins, sem fram fór samhliða ólympíuskákmótinu í Dúbaí. „Margeir Pétursson var einnig útnefndur stórmeistari á þinginu en áður voru Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson búnir að landa titlinum. Við fjórir mynduðum uppistöðuna í landsliði Íslands á þessum árum og vorum gjarnan til gamans nefndir „fjórmenningaklíkan“. Ísland varð í 5. sæti á ólympíumótinu í Dúbaí og síðan 6. sæti í Manila á Filippseyjum 1992, sem þótti ekki lítið afrek hjá svo fámennri þjóð.“

Jón tefldi á níu ólympíuskákmótum árin 1978-1994 og var síðan liðsstjóri íslensku sveitarinnar á ólympíumótinu í Tromsö 2014. Jón varð þrisvar sinnum Skákmeistari Íslands og varð m.a. einn efstur á alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu 1988, fyrstur Íslendinga í 18 ár. Jón var meðal stofnenda skákskóla Friðriks Ólafssonar og kenndi síðar við Skákskóla Íslands samhliða taflmennsku og skákskrifum. Jón sá um fasta skákþætti í Dagblaðinu og síðar DV frá 1978-1998 og skrifaði bókina „Skákstríð við Persaflóa“ ásamt dr. Kristjáni Guðmundssyni, sem fjallar um ólympíumótið í Dúbaí og kom út 1987. Þá gerðu þeir Helgi Ólafsson skákkennslu á myndböndum sem út kom 1991. Jón er viðurkenndur skákþjálfari FIDE.

„Eftir að hafa sinnt skákinni í átta ár fannst mér þetta orðið gott. Ég fór þá aftur í viðskiptafræðina og bætti við mig endurskoðunarsviði en ég hafði áður útskrifast af fjármálasviði. Í framhaldi af því starfaði ég hjá Löggiltum endurskoðendum frá 1994-1997 þegar mér bauðst fjármálastjórastaða hjá því fræga fyrirtæki OZ. Fjölmargir sprotar urðu til úr efniviðnum í OZ enda var þar valinn maður í hverju rúmi. Einn þeirra var Fjárstoð sem ég og Gunnar Thoroddsen stofnuðum 2001, félag sem sinnir fjármálaþjónustu, bókhaldi, launavinnslu og greiðsluþjónustu. Leiðir okkar skildi þegar Gunnar fór yfir til Landsbankans og 2005 hóf ég störf í eignastýringu hjá Kaupþingi.“

Jón starfaði í tíu ár hjá Kaupþingi og síðar Arion banka, fyrst sem sérfræðingur í einkabankaþjónustu, forstöðumaður einkabankaþjónustu frá 2009 og síðar sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóða í rekstri bankans í ársbyrjun 2013. Hann var þá framkvæmdastjóri Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. og rekstrarstjóri Lífeyrisauka. Frá árinu 2015 hefur Jón verið framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs.

„Það felst mikil ábyrgð í því að stýra lífeyrissjóði, gæta sparnaðar fólks yfir ævina og reyna að ávaxta hann á sem bestan og skynsamastan hátt. Því miður vaknar áhuginn á lífeyrismálum oftast nær ekki fyrr en fólk fer að nálgast eftirlaunaaldur. Það er hins vegar mikilvægt að huga að þessum málum snemma á lífsleiðinni, því rétt eins og í skákinni skiptir máli að búa í haginn fyrir endataflið.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Þórunn Guðmundsdóttir, f. 24.8. 1964, gæðastjóri hjá Kauphöll Íslands. Foreldrar hennar eru Helga Bjarnadóttir húsfreyja, f. 20.10. 1937, d. 25.4. 2017, og Guðmundur Þorsteinsson, fv. bóndi á Skálpastöðum í Lundarreykjadal, f. 18.8. 1937.

Börn Jóns og Þórunnar eru: 1) Ingibjörg, f. 26.6. 1988, fjármála- og tryggingastærðfræðingur í Reykjavík, gift Hjálmari Helga Rögnvaldssyni verkfræðingi. Börn þeirra eru Helga Fanney, f. 2015, og Elmar Kári, f. 2019. 2) Helga Birna, f. 27.2. 1993, B.Sc. í viðburðastjórnun, maki Beau Nicolas Hari Hurlock. 3) Hugrún Arna, f. 19.9. 1994, fjármálastærðfræðingur í Reykjavík, maki Sveinn Bjarki Brynjarsson tölvunarfræðingur. Systkini Jóns eru Björn Einar, f. 2.11. 1953, stærðfræðikennari í Reykjavík; Brynhildur, f. 19.5. 1955, lyfjafræðingur í Reykjavík, og Ásgeir Þór, f. 20.9. 1957, lögmaður í Garðabæ.

Foreldrar Jóns eru Árni Björnsson, f. 6.8. 1927, d. 24.7. 1978, lögfræðingur og endurskoðandi og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 22.10. 1930, d. 3.5. 1988, ritari. Þau bjuggu í Reykjavík.