Slátrun Hætt er við að birgðir safnist upp í frystigeymslum landsins.
Slátrun Hætt er við að birgðir safnist upp í frystigeymslum landsins. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Útlit er fyrir auknar birgðir af lambakjöti ef ekki rætist úr með innanlandsmarkað og útflutning. Sala á lambakjöti dróst mjög saman í sumar, frá því sem verið hefur. Forstöðumaður stórrar kjötafurðastöðvar óttast að ef mikið verður flutt inn af kjöti á næstu mánuðum muni markaðurinn hrynja. Það eina rétta sé að stöðva innflutning á meðan verið er að vinna úr birgðunum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Útlit er fyrir auknar birgðir af lambakjöti ef ekki rætist úr með innanlandsmarkað og útflutning. Sala á lambakjöti dróst mjög saman í sumar, frá því sem verið hefur. Forstöðumaður stórrar kjötafurðastöðvar óttast að ef mikið verður flutt inn af kjöti á næstu mánuðum muni markaðurinn hrynja. Það eina rétta sé að stöðva innflutning á meðan verið er að vinna úr birgðunum.

Hrun varð í sölu kindakjöts í sumar. Ef miðað er við sölu frá framleiðendum dróst sala á dilkakjöti saman um þriðjung á þriðja ársfjórðungi, í júlí til september, en um 28,5% ef litið er á allt kindakjöt. Sala annarra innlendra kjöttegunda stóð í stað í sumar eða dróst saman.

Framleiðsla á dilkakjöti í sláturtíðinni í haust hélt áfram að minnka. Kemur það eitthvað á móti minnkandi sölu.

Mest fer til Bretlands

Útflutningur á kindakjöti hefur gengið fremur illa vegna kórónuveirufaraldursins. Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, segir að Bretland hafi haldið útflutningnum uppi. Færeyjar taki alltaf sitt. Nánast ekkert hafi farið til Spánar í haust. Það grundvallast á því að helsti kaupandi afurðanna þar á enn birgðir frá fyrra ári vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Ágúst segir að lítið hafi farið til Noregs af sömu ástæðu, þar séu færri munnar að metta. Hins vegar hafi þau skilaboð borist frá stærsta innflytjandanum þar að búast megi við að kvótinn fyrir næsta ár, 600 tonn, verði nýttur á næsta ári. Ágúst segir þó að það fari vitaskuld eftir því hvenær hjólin fari að snúast á ný.

Þá hefur lítið farið til Þýskalands, Danmerkur og Ítalíu í haust.

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, hefur svipaða sögu að segja. Lítið fari á Spánarmarkað. Segir Steinþór að SS sé að flytja út 330 tonn þessar vikurnar sem er 80 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Telur hann þó að útflutningurinn eigi að duga, það er að segja ef salan hér heima kemst í samt lag.

Ágúst segir að ágætisskilaverð fáist fyrir útflutt kjöt. Þar hjálpi lækkun á gengi krónunnar til.

Erfið samkeppni

Steinþór telur að þótt fáir ferðamenn hafi komið til landsins í ár komi það á móti að Íslendingar séu meira heima. Meðalmannfjöldi í landinu sé því svipaður. Hins vegar hafi ferðamenn borðað meira af kjöti en Íslendingar. Telur hann að samdrátt í kjötneyslu megi að hluta rekja til efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins, meðal annars aukið atvinnuleysi. Fólk kaupi ódýrari mat. Þá hafi samkomubann áhrif, fólk komi minna saman á ættarmót og fleiri samkomur þar sem oft er mikið borðað af kjöti.

Ágúst segir að minni tollvernd á kjöti og óheftur innflutningur hafi áhrif á okkar eigin framleiðslu. Hægt sé að fá ódýrt kjöt í Evrópu nú og flytja inn tollalaust eða með lágum tollum. Erfitt sé að keppa við það. Það leiði til birgðasöfnunar á innlendu kjöti.

Segir hann að framleiðsla á kindakjöti hafi minnkað það mikið á undanförnum árum að ekki ætti að vera vandamál að fleyta birgðunum áfram þangað til ferðamennirnir fari að skila sér aftur. Ef hins vegar of mikið verði flutt inn af kjöti á meðan ástandið er erfitt, geti markaðurinn hrunið. Telur hann það eina rétta að stöðva innflutning á meðan verið er að vinna úr málum.