Lilja Björk Júlíusdóttir fæddist 31. janúar 1954. Hún lést 19. október 2020. Foreldrar hennar voru Júlíus Friðrik Kristinsson, f. 1932, d. 7.4. 1986, og Þórný Axelsdóttir, f. 2.2. 1934, d. 2014. Systkini Lilju, sammæðra: Ragnar, f. 1957, Bylgja, f. 1959, og Gylfi Freyr f. 1967. Systkini Lilju, samfeðra: Karl, f. 1952.

Lilja eignaðist eina dóttur, Margréti Bjarnadóttur hjúkrunarfræðing, f. 25.11. 1980, með Bjarna Ingvarssyni, f. 30.8. 1952. Margrét er gift Martin Melhuus, f. 7.5. 1978. Þau eiga tvö börn: Ivar, f. 17.8. 2013, og Lilju, f. 15.7. 2016. Sambýlismaður Lilju til rúmlega tveggja áratuga er Kjell Melsether, f. 22.9. 1947, framkvæmdastjóri.

Lilja stundaði nám í Lögregluskóla Íslands 1976-1978 og starfaði í lögreglunni 1976-1981. Hún útskrifaðist frá Þroskaþjálfaskóla Íslands 1984. Sama ár flutti hún til Noregs og starfaði við faggrein sína á Emma Hjort fyrstu árin og síðan sem deildarstjóri á ýmsum deildum í Bærum. Síðustu árin starfaði hún á Dalelökken í Asker.

Útför Lilju fór fram frá Fagerborg Kirke hinn 30. október 2020.

Fyrir hartnær 46 árum mætti ég, full eftirvæntingar, í fyrsta tímann í Lögregluskóla ríkisins, sem svo hét, til að mennta mig til lögreglustarfa. Í hópnum voru tvær konur en auk mín var þar Lilja Björk Júlíusdóttir sem nú er fallin frá á blómaskeiði lífs síns. Sú frétt kom eins og þruma úr heiðskíru lofti - enda ekki nema nokkrar vikur frá því Lilja skrifaði mér falleg skilaboð á afmælisdegi mínum og tilkynnti jafnframt heimsókn sína til Íslands á haustdögum. Við áttum samleið í lögreglunni í nokkur ár eða þangað til Lilja ákvað að mennta sig sem þroskaþjálfi og flytja í kjölfarið til Noregs. Lilja eignaðist dóttur sína, Margréti, á meðan hún var í lögreglunni og ein og óstudd ól hún hana upp af miklum myndarbrag og kærleik. Lilja var fljót að eignast vini í lögreglunni og var eftir því tekið hvað hún var natin og vinsamleg við eldri lögreglumenn sem nálguðust starfslok. Ég sé hana fyrir mér við spilaborðið þar sem hún sat og spilaði við karlana á vaktinni og hló sínum hvella og smitandi hlátri. Ég sé hana líka fyrir mér í Árbæjarstöðinni með vöfflujárnið en það kom oft fyrir að hún mætti þangað á næturvöktunum, þegar lítið var að gera, og bakaði vöfflur fyrir karlana á stöðinni. Hún var einfaldlega hvers manns hugljúfi og ávann sér fljótt virðingu og traust. Hún stóð því sannarlega ekki ein þegar hún átti von á Margréti sinni. Vinir hennar í lögreglunni mættu til hennar, máluðu, lagfærðu íbúðina hennar og gáfu henni síðan mjög veglega gjöf þegar dóttir hennar fæddist. Í Lögregluskólanum lærðum við nokkur saman og lásum undir próf heima hjá henni. Þá átti hún það til að bjóða óvænt upp á kæsta skötu og hnoðmör sem vakti mikla lukku okkar skólafélaganna. Eftirminnilegar eru lögregluæfingarnar þar sem við vorum látnar ganga í gegnum ýmiss konar gönguæfingar, skotfimi, handtökuæfingar og fleira. Þar var sannarlega glatt á hjalla og mikið hlegið. Eftir að Lilja flutti til Noregs héldum við sambandi og ég heimsótti hana þangað reglulega. Minnisstæð er ein heimsóknin þegar við Lilja og Arnþrúður Karlsdóttir, vinkona okkar úr lögreglunni sem þá stundaði nám í Osló, skemmtum okkur konunglega í nokkra daga. Ég var með son minn á öðru ári og saman þvældumst við um alla borg og enduðum einn daginn á því að snæða hreindýrasteik á veitingahúsi í Holmenkollen. Við hlógum mikið að vandlætingarsvip Norðmannanna þegar þeir sáu okkur með lítið barn svona seint að kvöldi. Lilja var ein af þeim sem létu drauma sína rætast og var óhrædd að takast á við nýjar áskoranir. Hún blómstraði í þroskaþjálfastarfinu í Noregi og vann sig upp í áhrifastöður á þeim vettvangi. Síðustu árin naut hún þess að lifa lífinu með sambýlismanni sínum til fjölda ára, Kjell, Margréti og barnabörnunum. En svo kom kallið ófyrirsjáanlega þegar hún fékk heilablóðfall sem ekki varð við ráðið. Eftir standa ættingjar hennar og aðrir ástvinir, bugaðir af sorg og söknuði. Minningarnar munu þó lifa um einstaka konu sem gaf svo mikið af sér; minningar sem ylja í sorginni.

Ragnheiður Davíðsdóttir.