Krít Teja Gorsic sækir í gær en Lovísa Henningsdóttir er til varnar.
Krít Teja Gorsic sækir í gær en Lovísa Henningsdóttir er til varnar. — Ljósmynd/FIBA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undankeppni EM Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik átti erfitt uppdráttar þegar liðið mætti Slóveníu í gær í fyrri leiknum af tveimur sem til stendur að liðið spili á Krít í Grikklandi.

Undankeppni EM

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik átti erfitt uppdráttar þegar liðið mætti Slóveníu í gær í fyrri leiknum af tveimur sem til stendur að liðið spili á Krít í Grikklandi. Slóvenía tók völdin á vellinum strax í fyrsta leikhluta og vann öruggan sigur 94:58. Leikið er í Grikklandi vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur haft á mótshaldið. Liðin voru því á hlutlausum velli en hefðu átt að mætast á Íslandi ef allt hefði verið eðlilegt.

Lið Slóveníu er mun hærra skrifað en lið Íslands og úrslitin ef til vill nokkuð eftir bókinni. Enda hefur Slóvenía unnið alla þrjá leikina til þessa í riðlinum en Ísland hefur tapað fyrstu þremur leikjunum. Grikkland og Búlgaría eru einnig í A-riðlinum og Grikkir höfðu betur í viðureign þeirra í gær.

Leikurinn í gær var erfiður fyrir íslensku landsliðskonurnar eins og sjá má á úrslitunum sem og upplýsingum um fráköst sem sjá má í kassanum sem fylgir greininni. Líkamlegir burðir þeirra slóvensku eru meiri og þær eiga fleiri leikmenn sem eru sterkir nærri körfunni. Ísland saknaði sinna bestu leikmanna, Helenu Sverrisdóttur sem er í barneignarfríi og Hildar Kjartansdóttur sem er meidd á fingri.

Aðdragandi leiksins var heldur ekki skemmtilegur fyrir íslensku leikmennina. Tvo leikmenn vantaði hjá Slóveníu sem smituðust af kórónuveirunni í vikunni. Smit komu upp í herbúðum allra hinna þriggja liðanna sem leika í riðlinum á Krít en þó ekki í íslenska hópnum. En væntanlega er ekki aðlaðandi tilhugsun að mæta leikmönnum sem nýlega hafa verið innan um smitaða einstaklinga.

Það hefði ekki breytt miklu varðandi úrslitin þar sem Slóvenía er í mun hærri gæðaflokki en Ísland um þessar mundir en sýnir að þessar aðstæður sem íslenska liðið var sett í eru ekki merkilegar. Forráðamenn KKÍ, og Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari, hafa heldur ekki legið á gagnrýni vegna þessa fyrirkomulags sem Körfuknattleikssamband Evrópu greip til.

Þótt úrslitin hafi verið slæm þá náðu samt nokkrar landsliðskonur að sýna ágætar hliðar gegn sterkum andstæðingi. Sara Rún Hinriksdóttir átti stórleik og skoraði 23 stig af 58 hjá Íslandi. Hún tók einnig 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Sara tók mun meira af skarið en í leikjunum fyrir ári og það er góðs viti fyrir liðið. Leikstjórnandinn Þóra Kristín Jónsdóttir lék einnig vel og skoraði 10 stig.

Bríet Sif Hinriksdóttir og Lovísa Henningsdóttir áttu fína innkomu af bekknum. Bríet skoraði 8 stig og Lovísa lét til sín taka í vörninni.

Ísland – Slóvenía 58:94

Heraklion Grikklandi, Undankeppni EM kvenna, 12. nóvember 2020.

Gangur leiksins : 11:15, 17:30, 26:40, 31:57 , 36:63, 48:77, 58:94 .

Ísland : Sara Rún Hinriksdóttir 23 stig/7 fráköst, Þóra Kristín Jónsdóttir 10, Bríet Sif Hinriksdóttir 8, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/1 varið skot, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 6, Hallveig Jónsdóttir 4, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 2 stig/5 fráköst/1 varið skot.

Fráköst : 28 í vörn, 5 í sókn.

Slóvenía : Annamaria Prezelj 23 stig, Shante Evans 21, Aleksandra Kroselj 16, Teja Oblak 12, Eva Lisec 7/15 fráköst, Lea Debeljak 7, Tina Cvijanovic 3, Merisa Dautovic 3, Maurice Senicar 2.

Fráköst : 39 í vörn, 19 í sókn.

Dómarar : Ciprian Stoica Rúmeníu, Maxime Boubert Frakklandi, Nir Meirson, Ísrael.

Áhorfendur : Ekki leyfðir.